Hátt í tuttugu manns hafa hringt í Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra, í morgun til að biðja um að skrifa undir áskorun til að samþykkja nýju stjórnarskrána. Össur, sem hefur enga aðkomu að áskoruninni, hefur samviskusamlega tekið niður upplýsingar og beint fólki á réttan stað. Hann grunar að símanúmerið hafi verið gefið upp á Útvarpi Sögu og fólk hvatt til að hringja.

„Það hafa rúmlega tuttugu manns hringt í mig í morgun og ég hafði ekki hugmynd hvað ég hefði orðið mér til dáða unnið að vera orðinn svona vinsæll,“ segir Össur í samtali við Fréttablaðið. „Það kom í ljós að allir voru að hringja í sömu erindagjörðum, vildu skrifa undir nýju stjórnarskrána. Ég tók þessu ljúfmannlega og sagði að hún væri ekki á mínum vegum en svo rann upp fyrir mér að Pétur á Útvarpi Sögu hafi gefið upp númerið mitt.“

Össur hafði þá samband við Katrínu Oddsdóttur, sem stendur að undirskrifasöfnuninni, og fékk rétt númer. „Ég er hættur að skrifa niður nöfn og gef nú fólki rétt númer.“

Hann veit ekki hvers vegna númerið hans var gefið upp. „Annað hvort er Pétur svona hrekkjóttur eða hann er farinn að tapa áttum í tilverunni. Ég hlusta reglulega á hann á morgnanna þá hallast ég að hinu síðara.“

Arnþrúði Karlsdóttur, útvarpsstjóra Útvarps Sögu, brá mjög þegar blaðamaður hringdi. Sagði þetta vera slæm mistök. Líklegast hafi einhver farið línuvillt, hyggst hún hafa samband við Össur í dag vegna málsins.

Össur segir að hann sé ánægður að geta lagt verkefninu lið. „Það er mjög ánægjulegt. Ég styð þetta heilshugar og finnst þetta gott framtak. Þau hafa staðið sig alveg ótrúlega vel.“