„Ég sé framtíð mína fyrir mér á Íslandi,“ segir Joniada Dega heilbrigðisverkfræðingur. Joniada fæddist í Albaníu en flutti til Íslands ásamt fjölskyldu sinni, sem flúði pólitískar ofsóknir í heimalandi sínu árið 2015. Í febrúar ári síðar var fjölskyldunni neitað um hæli hér á landi og send aftur til Albaníu í maí sama ár, Joniada hafði þá stundað nám við Flensborgarskólann.

Í júlí 2016 fékk fjölskylda Joniödu dvalarleyfi til árs í senn, en börnin hafa þó þurft að sækja um framlengingu á dvalarleyfi á hálfs árs fresti. Í dag útskrifast Joniada Dega með meistaragráðu í heilbrigðisverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík, aðeins 23 ára gömul.

„Að mínu mati er heilbrigðisverkfræði hlekkur á milli verkfræði og læknisfræði og höfðaði til mín þar sem þetta er starf sem stuðlar að því að gera heiminn að betri stað,“ segir Joniada. Þá segir hún menntunina fela í sér fjölbreytta starfsmöguleika, svo sem við kennslu eða rannsóknir á sjúkrahúsum, hjá eftirlitsstofnunum eða lyfjafyrirtækjum.

Fréttablaðið fjallaði um það þegar fjölskylda Joniada kom aftur til Íslands
mynd/fréttablaðið

Joniada hefur nú þegar fengið starf við rannsóknir hjá Svefnbyltingunni, þverfaglegu rannsóknarverkefni við Háskólann í Reykjavík. Hún segist spennt fyrir starfinu, sem sé þó háð því að hún fái hér atvinnuleyfi. „Ég er í þjálfun núna á meðan ég bíð eftir leyfi Útlendingastofnunar til að hefja störf þar í samræmi við lög.“

Joniada segist líta á Ísland sem heimili sitt og vonast til að menntun hennar geti nýst íslensku heilbrigðiskerfi. Meistaraverkefni sitt vann Joniada í samstarfi við Blóðbankann þar sem hún spáði fyrir um þörf og framboð á blóði fyrir bankann.

Niðurstöður verkefnisins sýna fram á að árið 2028 verði eftirspurn eftir rauðum blóðkornum orðin meiri en framboð. Þó muni aukning kvenblóðgjafa smám saman valda framboðsskorti síðar en spáð var. „Ég vil nota tækifærið og hvetja konur til að gefa blóð,“ segir Joniada og bætir við að konur séu einungis 30 prósent þeirra sem gefi blóð á móti 70 prósentum karla.

Spurð að því hvort hún telji að hún hefði getað menntað sig á sama hátt í Albaníu og hér á Íslandi segir Joniada svo ekki vera. „Ég hef fengið tækifæri til þess að læra í einum virtasta háskóla landsins hjá afburðakennaraliði sem veitir gagnvirka kennslu með því að nota nútímalegar aðferðir og verkfæri,“ segir hún.

„Reynsla mín á Íslandi er orðin að minningu sem mun endast alla ævi og ég er þakklát fyrir að vera hér,“ segir Joniada

„Reynsla mín á Íslandi er orðin að minningu sem mun endast alla ævi og ég er þakklát fyrir að vera hér,“ segir Joniada
Fréttablaðið/Anton Brink