Hinn þrettán ára gamli Jack Rico varð um helgina yngsti stúdentinn til að út­skrifast úr Fuller­ton Collega í Kali­forníu-ríki Banda­ríkjanna en Rico út­skrifaðist með fjórar gráður eftir tveggja ára nám. Hann lauk námi í sögu, mann­legri tjáningu, fé­lags­legu at­ferli og fé­lags­vísindum.

„Ég elska bara að læra nýja hluti. Ég elska að vita meira um heiminn og alla mis­munandi hlutina sem við getum lært,“ sagði Rico í sam­tali við CNN um málið en hann fékk A í öllum á­föngunum sínum. Hann segir lykilinn að árangri sínum vera að ráð­stafa tíma sínum vel og hlusta á kennarana.

Áður en hann fór í námið hafði hann verið heima­menntaður og var út­skriftin úr Fuller­ton því hans fyrsta en hætt var við út­skriftar­athöfnina vegna CO­VID-19 heims­far­aldursins. „Ég var pínu sorg­mæddur og von­svikinn því ég hef aldrei út­skrifast áður,“ sagði hann.

Rico bað mömmu sína um ferð í Hvíta húsið fyrir fjögurra ára afmælið.

Lærði nöfn allra varaforseta Bandaríkjanna þriggja ára gamall

Móðir Rico, Ru Andra­de, segir að hann hafi alltaf verið sér­stakur og minnist þess að á fjögurra ára af­mælis­daginn hafi hann ekki óskað eftir leik­föngum eins og jafn­aldrar sínir heldur hafi hann viljað heim­sækja Hvíta húsið.

Andra­de sagði að það væri stór ferð og sagði við hann í gríni að ef hann gæti lagt nöfn allra Banda­ríkja­for­setanna á minnið þá gæti hann farið en Rico kom henni fljót­lega á ó­vart. Hann sagði; „Ég vissi nú þegar nöfnin á öllum for­setunum en ég lagði nöfn vara­for­setanna á minnið svo við gætum farið.“

Næsta skref fyrir Rico er nám við Há­skólann í N­evada í Las Vegas þar sem hann hefur þegar fengið fullan náms­styrk. „Ég er þrettán núna þannig ég er ekki með lífið alveg á hreinu,“ sagði Rico að­spurður hvað hann vilji gera í fram­tíðinni.

„Ég er enn þá að kanna á­huga­mál mín og læra hvað ég vil gera í lífinu.“