Heil­brigðis­öryggi­stofnun Bret­lands mælir með því að ein­staklingar sem verða út­settir fyrir apa­bólu­smiti ein­angri sig í 21 dag, þrátt fyrir að finna ekki fyrir ein­kennum. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Þá er út­settum einnig ráð­lagt að fara í gegnum smitrakningu, forðast ferða­lög og halda sig frá þunguðum konum og börnum undir 12 ára.

Apa­bólu­smitum fer fjölgandi í Bret­landi um þessar mundir hafa yfir 50 stað­fest smit greinst í landinu. Lang­flest eru á Eng­landi en fyrsta stað­festa smitið í Skot­landi greindist í dag.

Boris John­son, for­sætis­ráð­herra Bret­lands, segir hins vegar að smit séu fá­tíð enn sem komið er og fylgjast yfir­völd náið með stöðunni.

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands, segir smit í landinu enn fátíð.
GettyImages

„Þetta hefur ekki reynst ban­vænt enn, alla­vega ekki í þessu landi,“ er haft eftir John­son í frétt BBC.

Fjöldi stað­­festra smita á heims­vísu er for­­dæma­­laus en sjúk­­dómurinn er venju­­lega stað­bundinn við Mið- og Vestur Afríku.

Apa­bóla dreifist ekki auð­veld­­lega á milli fólks og því hafa læknar verið furðu lostnir yfir fjölda til­­­fella í mis­munandi heims­álfum á sama tíma. Veiran smitast að­eins frá manni til manns með náinni líkam­­legri snertingu, eins og með kyn­lífi.

Ein­­kenni apa­bólu eiga það til að vera væg. Höfuð­­verkur, verkir í vöðvum og þreyta eru dæmi um ein­­kenni, en apa­bóla getur einnig valdið húð­­skemmdum hjá þeim sem sýkjast.

Bresk heil­brigðis­yfir­völd biðja alla ein­stak­linga sem finna fyrir ein­kennum að gefa sig fram. Breska heil­brigðis­stofnunin UK­HSA hefur einnig greint frá því að smit séu að greinast í miklum mæli í sam­kyn­hneigðum ein­stak­lingum.

Erfitt er þó að segja til um hvers vegna sjúk­dómurinn herji frekar á þessa ein­stak­linga en aðra.

„Við mælum með að allir sem stunda kyn­líf með mörgum mis­munandi aðilum eða eiga náið reglu­bundið sam­neyti við ein­stak­linga sem þau ekki þekkja ættu að stíga fram ef þeir taka eftir ein­kennum,“ segir Susan Hop­kins heil­brigðis­sér­fræðingur innan UK­HSA.