Brottvísun egypsku Kehdr-fjölskyldunnar tafðist vegna útrunninna vegabréfa. Þetta sagði Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri hjá Útlendingastofnun, í Kastljósi í kvöld. Að hans sögn hefði annars verið hægt að flytja fjölskylduna úr landi í ársbyrjun, áður en kórónaveirufaraldurinn skall á.

Til þess hefðu foreldrarnir þurft að sækja um framlengingu á vegabréfum tveggja barna sem höfðu þá runnið út. Að sögn Þorsteins voru þeir ekki viljugir til þess og þurftu yfirvöld því að óska eftir nýjum vegabréfum frá egypskum yfirvöldum sem hafi tekið fleiri mánuði.

Til stendur að vísa fjölskyldunni úr landi á morgun en umsókn þeirra um alþjóðlega vernd hefur verið hafnað af Útlendingastofnun.

Sóttu um hæli í ágúst 2018

Málið hefur verið mikið til umfjöllunar undanfarna daga en stjórnvöld hafa meðal annars verið gagnrýnd fyrir að vísa fjölskyldunni á brott eftir rúmlega tveggja ára dvöl á Íslandi.

Hjónin Doaa og Ibrahim komu hingað til lands í ágúst 2018 ásamt fjórum börnum sínum til að sækjast eftir alþjóðlegri vernd.

Þau segjast hafa orðið fyrir ofsóknum í Egyptalandi vegna þátttöku Ibrahim í stjórnmálastarfi. Útlendingastofnun synjaði þeim um vernd í lok júlí í fyrra og mat að fjölskyldan væri örugg í Egyptalandi.

Var sú ákvörðun staðfest af kærunefnd útlendingamála í nóvember á síðasta ári, rúmum 15 mánuðum eftir höfnun Útlendingastofnunar. Þá fékk fjölskyldan 30 daga frest til að yfirgefa landið sem hún gerði ekki og stóð þá til að vísa henni úr landi í febrúar.

Þorsteinn sagði í Kastljósi að fjölskyldan hafi haft tíma til að fara sjálfviljug úr landi þegar endanleg niðurstaða fékkst í málið.

Fjölskyldan hafi í kjölfarið óskað eftir frestun réttaráhrifa en kærunefnd útlendingamála hafnað þeirri beiðni.

Því hafi það ekki verið fyrr en í lok janúar sem íslensk stjórnvöld gátu farið að vinna að brottvísuninni og haft samband við egypsk stjórnvöld

Fréttin hefur verið uppfærð: Fjölskyldan fékk réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar og kærunefndar ekki frestað líkt og sagði í upphaflegri útgáfu fréttarinnar heldur var þeirri beiðni hafnað.