„Jú, það er mikill heiður að sjá þetta og þetta er flott nafnbót,“ segir Unnur Þorsteinsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu, um útnefninguna sem áhrifamesta vísindakona Evrópu.

„Þetta er byggt á upplýsingum frá veitu sem fylgist með birtingum víðs vegar um heiminn og hversu oft er vitnað í greinarnar sem maður kemur að sem höfundur. Það er notað sem mælikvarði við útnefninguna. Ég var ekki búin að vera að skoða þetta, en fékk að vita að þetta var í fyrsta sinn sem konur eru teknar út fyrir svigann og útnefndar sérstaklega.“

Unnur var útnefnd áhrifamesta vísindakona Evrópu og fimmta áhrifamesta vísindakona heims samkvæmt útreikningum Research.com. Þetta er í fyrsta sinn sem vísindakonur ársins fá sérstaka nafnbót. Hún er eina íslenska vísindakonan sem kemst á listann að þessu sinni.

Með breytingunni er markmið Research að hvetja konur innan vísindageirans til frekari dáða og ungar konur til að helga sig vísindum. Staðan sé enn sú að konur séu aðeins þriðjungur starfsfólks í vísindageiranum.

„Það er hægt að taka undir það að þessi útnefning sé hugsuð til valdeflingar fyrir konur innan vísindageirans,“ segir Unnur sem tók við embætti forseta heilbrigðisvísindasviðs háskólans á dögunum og sinnir því samhliða starfi sínu hjá Íslenskri erfðagreiningu. Hún segist sjá aukningu í aðsókn kvenna í vísindagreinar innan háskólans.

„Hlutfall kvenna í vísindum er alltaf að aukast. Það hafa alltaf verið konur innan vísindageirans og þeim er að fjölga, eins og í öðrum háskólagreinum.“

Þetta er enn ein rósin í hnappagatið hjá Unni sem er margverðlaunuð fyrir störf sín innan vísindageirans. Hún hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag á vettvangi erfðarannsókna og vísinda árið 2017.

Alls hefur verið vitnað 190 þúsund sinnum í verk eftir Unni sem segist ekki vera ein að verki í þeim.

„Þetta eru auðvitað líka mörg samstarfsverkefni, og ég hef unnið að mörgum verkefnum með stórum hópi fólks innan veggja Íslenskrar erfðagreiningar. Vísindi nú til dags byggjast að mörgu leyti á samstarfi vísindamanna,“ segir Unnur sem hefur unnið í rúma tvo áratugi hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Þar sinnir hún erfðarannsóknum, meðal annars tengdum hjarta- og æðasjúkdómum, efnaskiptasjúkdómum og krabbameinum og hefur samhliða því gegnt stöðu rannsóknarprófessors hjá Háskóla Íslands í fimmtán ár. Hún segist vera afar stolt af verkefnum sínum innan Íslenskrar erfðagreiningar.

„Ég hef fengið að taka þátt í að byggja upp frábæra rannsóknarinnviði innan Íslenskrar erfðagreiningar og er þakklát fyrir þau tækifæri sem ég hef fengið þar.“