„Það er ekki sér­lega gott veður á föstu­dag og laugar­dag á landinu, en á sunnu­dag ætti veðrið að skána,“ segir Marcel De Vries, veður­fræðingur hjá Veður­stofu Ís­lands.

Hann segir að það sé lægð sem er að fara yfir suð­austur­hluta landsins og að það eigi að byrja að rigna á föstu­dag.

Verslunarmannahelgin fer síður en svo vel af stað samkvæmt spánni. Rigna á um allt land síðdegis á föstudag.
Skjáskot/Veðurstofa Íslands.

„Þessi lægð kemur á landið á að­fara­nótt laugar­dags og þegar hún færist til norð­austurs þá snýst vindurinn í norð­læga átt og þá styttir smám saman upp fyrir sunnan og vestan seint á laugar­dag. Á sunnu­dag er út­lit nokkuð gott, skýjað með köflum fyrir vestan og bjart fyrir austan. Al­mennt úr­komu­lítið,“ segir Marcel.

Hann segir að hitinn verði al­mennt í kringum tíu stig um helgina, en það verður hlýjast yfir landinu á sunnu­daginn.

„Á mánu­dag verður hæg suð­aust­læg átt, þurrt að mestu. Það verður skýjað vestan til á landinu, en bjartar á austan­verðu landinu,“ segir Marcel.

Marcel segir að það eigi að rigna á föstudag og laugardag í Vestmannaeyjum.
Fréttablaðið/Vilhelm

Hann segir að þeir sem ætli á Þjóð­há­tíð í Vest­manna­eyjum megi búast við rigningu.

„Þetta verður smá erfitt á föstu­dag og á laugar­dag í Vest­manna­eyjum. Það styttir upp um há­degis­bil á laugar­dag, en svo er veður nokkuð gott um allt land á sunnu­dag og mánu­dag,“ segir Marcel.

Þá segir hann að það eigi að rigna yfir helgina á Akur­eyri, en það styttir upp á að­fara­nótt sunnu­dags. Á Egils­stöðum á að draga úr úr­komu á seinni­part laugar­dags.

„Það verður svo bjart yfir landinu á sunnu­dag og mánu­dag. Á þriðju­dag verður ró­legt veður, skýjað að mestu en bjart fyrir austan. Svo er út­lit fyrir að það fari að rigna aftur á mið­viku­daginn,“ segir Marcel.