Gular veðurviðvaranir taka gildi um hádegisbil á suðvestanverðu landinu og á miðhálendinu og gilda fram á kvöld. Á suðvestanverðu landinu er spáð hvassviðri eða stormi 15-23 metrum á sekúndu með skúrum eða slydduéljum á láglendi, en éljum á fjallvegum. Veðurstofan varar við slæmum akstursskilyrðum en þá getur há sjávarstaða, ölduhæð og áhlaðandi í suðvestanáttinni einnig skapað mikinn ágang við ströndina og í höfnum.

Veðrið skiptir um gír á morgun

Í dag er útlit fyrir hvassa suðvestanátt, síðdegis er einnig varað við suðvestan stormi á Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi. Búast má við skúrum eða slydduéljum, en það styttir upp og rofar til norðaustan- og austanlands. Hiti á bilinu 2 til 7 stig.

Eftir daginn í dag skiptir veðrið um gír og útlit er fyrir að fyrsti alvöru norðanáttarkafli vetrarins sé væntanlegur á næstu dögum að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Á morgun er sem sagt útlit fyrir vaxandi norðanátt á landinu, víða hvassviðri eða stormur eftir hádegi. Á sunnanverðu landinu er gert ráð fyrir lítilli úrkomu, einungis dálitlum éljum á víð og dreif. Þó ber að nefna að þar sem laus snjór er á jörðu, mun hann fara af stað og mynda skafrenning. Á norðurhelmingi landsins má búast við snjókomu og gæti hún orðið í nægilegu magni til að tala megi um stórhríð með köflum á Norður- og Norðausturlandi."

Styttir upp á föstudag

Spár gera ráð fyrir að norðanáttin haldi sama styrk á fimmtudag.

„Það herðir á frostinu þegar hrollkalt loft berst yfir okkur beint norðan úr Íshafinu." Ekki er gert ráð fyrir að norðanvindurinn gangi niður að gagni fyrr en eftir hádegi á föstudag og þá fer að stytta upp og létta til.

Eins og oft vill verða þegar lægir og léttir til eftir kalda norðanátt, þá nær frostið sér á strik og horfur eru á hægum vindi um helgina með hörkufrosti.