Út­lit er fyrir að víða í Evrópu sé aukin kjör­sókn en í dag ganga í­búar 21 ríkis Evrópu­sam­bandsins til þing­kosninga. Fyrir hafa sjö af 28 ríkjum sam­bandsins greitt at­kvæði. Niður­stöður munu liggja fyrir seint í kvöld.

Kjör­sókn í Frakk­landi til að greiða at­kvæði í Evrópu­þings­kosningunum var um 19,26 prósent um klukkan 12 að staðar­tíma í París, eða um klukkan 10 að ís­lenskum tíma. Innan­ríkis­ráðu­neyti Frakk­lands greindi frá því að kjör­sókn væri þannig tals­vert meiri um há­degis­bil en hún mældist í síðustu kosningum, árið 2014, á sama tíma. En þá mældist hún um 15,7 prósent, og 14,8 prósent fyrir 10 árum, árið 2009.

Í Króatíu hefur einnig mælst um 2 prósenta aukning á kjör­sókn. Í Rúmeníu er um 5 prósenta aukning, en klukkan tólf höfðu 19,76 prósent greitt at­kvæði, árið 2014 höfðu að­eins um 13 prósent greitt at­kvæði á sama tíma. Sama má segja um Eist­land, þar sem hún mældist um 29 prósent en var um 25 prósent á sama tíma árið 2014.

Á Ítalíu er hún svipuð og í síðustu kosningum, um há­degis­bil, eða um 16,8 prósent. Í Slóveníu er hún að­eins um 8 prósent sem svipar til þó síðustu ára. Mest var hún árið 2009, um há­degis­bil, en þá mældist hún 9,25 prósent.

42 prósent greiddu atkvæði 2014

Í síðustu kosningum, árið 2014, var kjör­sókn í allri Evrópu 42,61 prósent sem var ör­lítið minna en árið 2009, þegar hún var 42,97. Mest var kjör­sóknin í Belgíu þar sem nærri 90 prósent greiddu at­kvæði, en minnst í Slóvakíu, þar sem að­eins 13 prósent tóku þátt.

Hægt er að fylgjast með þátt­töku og öðrum fréttum í beinni texta­lýsingu Evrópu­þingsins hér.