Útlit er fyrir að meðalaldur þingheims haldi áfram að verða hár í sögulegu samhengi. Miðað við þá þingmenn sem næðu kjöri í nýjustu könnun MMR, verður meðalaldur þingmanna 49,1 ár en var 49,2 eftir kosningarnar fyrir fjórum árum. Þá hafði hann hækkað um rúmlega tvö ár frá kosningunum árið 2016.

Á undanförnum áratugum hefur meðalaldurinn aðeins verið hærri eftir kosningarnar 1978 og 1999, en þá slagaði hann hátt í 50 ár. Sumir hafa lýst háum meðalaldri á Alþingi sem áhyggjuefni og sagt hann tilefni til þess að lækka kosningaaldur til að koma röddum ungs fólks að við ákvarðanatöku.

Ef hvert kjördæmi er skoðað yrði meðalaldurinn hæstur í Suðurkjördæmi, það er 54,2 ár, en lægstur í Norðvesturkjördæmi, aðeins slétt 44 ár. Mestu skiptir þar um að í kjördæminu eru aðeins átta þingsæti og þar mælist Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir inni. Hún er formaður Ungra Framsóknarmanna og yrði langyngsti þingmaðurinn, aðeins 25 ára gömul.

Í Reykjavíkurkjördæmunum yrði meðalaldurinn 46,6 ár í norðri og 47,3 í suðri. Í Norðausturkjördæmi 52,1 ár og 49,8 í Suðvesturkjördæmi.

Enginn þingmaður yrði á eftirlaunaaldri en tíu yrðu á milli sextugs og sjötugs. Aldursforseti yrði Haraldur Ingi Haraldsson, hjá Sósíalistaflokknum í Norðausturkjördæmi, 65 ára. Skammt þar á eftir eru Ásmundur Friðriksson og Jón Gunnarsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Lilja yrði sú eina undir þrítugu en níu aðrir undir fertugu. Næstyngstar yrðu Una Hildardóttir, frambjóðandi Vinstri grænna, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dóms­málaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þrítugar.