Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ), segir að hlutfall fastráðinna hljóðfæraleikara af erlendu bergi brotinna sé 29 prósent.

„Stór hluti þeirra hefur búið hér á landi í tugi ára. Sumir hverjir eru íslenskir ríkisborgarar,“ segir Lára Sóley í svari til Fréttablaðsins.

Fastráðnir í hljómsveitinni eru frá 13 þjóðlöndum. Hljóðfæraleikarar hvaðanæva úr heiminum geta sótt um störf sem losna hjá hljómsveitinni. Þegar fyrsta ráðningarferli fer af stað um ákveðna stöðu er staðan þó aðeins auglýst í íslenskum miðlum.

Prufuspil skiptast í nokkrar umferðir. Fyrsta umferð fer alltaf fram bak við tjald þannig að þar hefur dómnefndin, sem skipuð er hljóðfæraleikurum SÍ, ekki vitneskju um hvern þau eru að hlusta á.

„Það er svolítið mismunandi eftir hljóðfærum hversu margar umsóknir berast um hverja stöðu en oft eru það milli tuttugu og þrjátíu manns sem mæta til prufuspils.“

Þótt gögn liggi ekki fyrir um hve hratt erlendum hljóðfæraleikurum hefur fjölgað má ætla að hlutfallið hafi aldrei verið hærra. Lára Sóley segist meta þennan liðsauka mikils.

„Tónlistarfólk af erlendu bergi brotið hefur svo sannarlega auðgað íslenskt tónlistarlíf frá upphafi. Það er óskaplega dýrmætt að njóta starfskrafta listamanna sem koma alls staðar að,“ segir Lára Sóley.

Á starfsárinu 2020–2021 voru 93 stöðugildi hjá stofnuninni.

Að auki hafði hljómsveitin um 82 lausráðna hljóðfæraleikara á starfsárinu.

Um 55 prósent starfsmanna eru konur og 45 prósent karlar. Framlag ríkisins til hljómsveitarinnar í ár er 1.212,6 milljónir króna, sem eru 82 prósent á móti 18 prósenta framlagi Reykjavíkurborgar. Áætla má að sinfónían hafi að minnsta kosti úr einum og hálfum milljarði að spila ef horft er til heildartekna.

„Hljómsveitin stendur frábærlega að vígi og er í sífelldri framþróun, nú undir listrænni stjórn okkar frábæra aðalhljómsveitarstjóra, Evu Ollikainen,“ segir Lára Sóley.