„Sem betur fer hefur ekki verið gerð nein árás en það hafa verið mjög ógnandi til­burðir þar sem fólk hefur verið hrætt,“ segir Svan­berg Sigur­geirs­son, deildar­stjóri öku­prófa hjá Frum­herja, þar sem öryggis­hnöppum hefur verið komið fyrir hjá próf­dómurum í öku­prófum.

Um fimm þúsund manns þreyta skrif­leg öku­próf hjá Frum­herja á hverju ári. Svan­berg segir flestum ganga vel en öðrum síður eins og gengur. Stundum hafa við­brögðin við falli verið ógnandi og jafn­vel of­beldis­full.

„Við höfum séð á eftir­lits­mynda­vélum að það hefur alveg legið við að það hafi verið rokið í próf­dómarann. Það hefur ekkert annað verið eftir en að ráðast á próf­dómarann – það hefur verið komið á það stig,“ lýsir Svan­berg.

Að sögn Svan­bergs eru hinir of­beldis­fullu nem­endur þeir sem ekki ná prófinu og virðast telja á sér brotið. Þar sé ekki um að ræða sau­tján ára krakkana sem eru að þreyta prófið heldur séu það fyrst og fremst full­orðnir karlar sem sýni þessa til­burði. Meiri hluti próf­dómaranna sé konur.

„Þó að maður sé kannski hræddur við að segja það þá er þetta eigin­lega mest bundið við út­lendinga. Við verðum sér­stak­lega vör við þetta frá löndum þar sem menningin er þannig að konur eru skörinni lægra í stiganum heldur en karl­menn. Þeir líta á niður á konur, sér­stak­lega ef þær eru að segja þeim eitt­hvað sem þeim líkar ekki,“ út­skýrir Svan­berg.

Staðan breytist oft að sögn Svan­bergs er karl­maður úr starfs­liði Frum­herja kemur inn í stofuna þar sem konu sem er próf­dómari er ógnað. Nokkur til­vik hafa komið upp eftir að öryggis­hnöppunum var komið fyrir. „Við höfum þurft að hringja á lög­reglu,“ segir hann.

Hægt er að taka prófið á ýmsum tungu­málum auk ís­lensku, til dæmis taí­lensku, pólsku, arabísku og spænsku. Mörgum finnst öku­prófið nokkuð snúið. „Þessi próf hafa náttúr­lega fengið gagn­rýni. Sumum finnst þau þvælin og auð­velt að flaska á þeim. En við komum ekki ná­lægt því að semja þessi próf, það er Sam­göngu­stofa sem gerir það,“ segir Svan­berg. „Vandinn er að fá fólk til að læra undir þessi próf, það er stundum að koma ó­undir­búið.“