„Sem betur fer hefur ekki verið gerð nein árás en það hafa verið mjög ógnandi tilburðir þar sem fólk hefur verið hrætt,“ segir Svanberg Sigurgeirsson, deildarstjóri ökuprófa hjá Frumherja, þar sem öryggishnöppum hefur verið komið fyrir hjá prófdómurum í ökuprófum.
Um fimm þúsund manns þreyta skrifleg ökupróf hjá Frumherja á hverju ári. Svanberg segir flestum ganga vel en öðrum síður eins og gengur. Stundum hafa viðbrögðin við falli verið ógnandi og jafnvel ofbeldisfull.
„Við höfum séð á eftirlitsmyndavélum að það hefur alveg legið við að það hafi verið rokið í prófdómarann. Það hefur ekkert annað verið eftir en að ráðast á prófdómarann – það hefur verið komið á það stig,“ lýsir Svanberg.
Að sögn Svanbergs eru hinir ofbeldisfullu nemendur þeir sem ekki ná prófinu og virðast telja á sér brotið. Þar sé ekki um að ræða sautján ára krakkana sem eru að þreyta prófið heldur séu það fyrst og fremst fullorðnir karlar sem sýni þessa tilburði. Meiri hluti prófdómaranna sé konur.
„Þó að maður sé kannski hræddur við að segja það þá er þetta eiginlega mest bundið við útlendinga. Við verðum sérstaklega vör við þetta frá löndum þar sem menningin er þannig að konur eru skörinni lægra í stiganum heldur en karlmenn. Þeir líta á niður á konur, sérstaklega ef þær eru að segja þeim eitthvað sem þeim líkar ekki,“ útskýrir Svanberg.
Staðan breytist oft að sögn Svanbergs er karlmaður úr starfsliði Frumherja kemur inn í stofuna þar sem konu sem er prófdómari er ógnað. Nokkur tilvik hafa komið upp eftir að öryggishnöppunum var komið fyrir. „Við höfum þurft að hringja á lögreglu,“ segir hann.
Hægt er að taka prófið á ýmsum tungumálum auk íslensku, til dæmis taílensku, pólsku, arabísku og spænsku. Mörgum finnst ökuprófið nokkuð snúið. „Þessi próf hafa náttúrlega fengið gagnrýni. Sumum finnst þau þvælin og auðvelt að flaska á þeim. En við komum ekki nálægt því að semja þessi próf, það er Samgöngustofa sem gerir það,“ segir Svanberg. „Vandinn er að fá fólk til að læra undir þessi próf, það er stundum að koma óundirbúið.“