Sema Erla Serdar, for­maður hjálpar­sam­takanna Solaris, greindi frá því á Twitter í kvöld að fjór­tán flótta­menn búi nú á götunni eftir að hafa verið vísað út af hús­næði Út­lendinga­stofnunar.

„Við vitum um fjór­tán ein­stak­linga sem eru núna á götunni og hefur verið hent út af úr­ræði Út­lendinga­stofnunar. Mikill meiri­hluti er frá Palestínu en þeir eru einnig frá Afgan­istan, Írak, Sýr­landi og fleiri löndum. Sá sem er búinn að vera lengst á götunni er búinn að vera þar í tvo mánuði og við vitum líka til þess að fleirum hafi verið hótað, þannig við búumst við því að þeim muni fjölga á næstu dögum,“ segir Sema Erla í sam­tali við Frétta­blaðið.

Útlendingastofnun felldi niður læknistíma

Frétta­blaðið birti í gær yfir­lýsingu níu Palestínu­manna sem Útlendingastofnun svipti fæði og hús-næði í síðustu viku eftir að þeir neituðu að fara í CO­VID-19 próf svo hægt væri að flytja þá til Grikk­lands þar sem þeir eru með al­þjóð­lega vernd. Sema Erla segir Solaris og sam­tökin No Bor­ders Iceland vera í reglu­legum sam­skiptum við þessa ein­stak­linga og segir hún sam­tökin leggja sig fram við að fylgjast náið með fram­vindunni í þeirra málum.

„Ég hitti ein­stak­ling í dag vegna þess að hann þurfti á þjónustu að halda sem Út­lendinga­stofnun hefur neitað honum um og þá sagði hann mér frá því að hann er veikur og átti tíma á morgun í fram­halds­með­ferð hjá lækni. Honum var síðan til­kynnt um að það væri búið að fella þennan læknis­tíma niður vegna þess að hann er ekki lengur í þjónustu hjá ís­lenska ríkinu,“ segir Sema.

Hún segist því næst hafa haft sam­band við fé­lags­þjónustu en hafi alls staðar fengið þau svör að maðurinn væri ekki í þjónustu hjá ís­lenska ríkinu og því væri væntan­lega enginn að fara að greiða fyrir læknis­tímann. Maðurinn er ekki með ís­lenska kenni­tölu og getur því ekki bókað sér tíma hjá lækni upp á eigin spýtur en Sema segir Solaris vera að vinna að því að koma honum undir læknis­hendur.

Sér ekki laga­lega rétt­lætingu á að­gerðum Út­lendinga­stofnunar

Að­spurð um hvort að fram­koma Út­lendinga­stofnunar gagn­vart manninum standist lög segist Sema Erla ekki telja að svo sé:

„Ég get ekki séð laga­lega rétt­lætingu á neinu af því sem að Út­lendinga­stofnun og ís­lensk stjórn­völd eru að gera flótta­fólki á Ís­landi núna. Ég tala nú ekki um þegar við erum farin að viljandi skerða heil­brigðis­þjónustu hjá veiku fólki, þá verðum við nú virki­lega að fara að líta í spegil og spyrja hvert við stefnum og hvort að þetta sé virki­lega fram­koma við fólk í neyð sem við viljum vera þekkt fyrir.“

Sema í­trekar að hún búist við því að fleiri hælis­leit­endum muni verða hent út af úr­ræði Út­lendinga­stofnunar og hópurinn sem hafist við á götunni muni því að öllum líkindum stækka á næstu dögum.

„Maður ein­hvern veginn heldur alltaf að það sé ekki hægt að koma manni lengur á ó­vart en ég held að botninum sé náð hér,“ segir Sema að lokum.