Málsmeðferðartími hjá Útlendingastofnun er nú styttri en áður. Frá árinu 2019 fór meðalafgreiðslutími umsókna úr 144 dögum í 130 daga.

Mest styttist meðalafgreiðslutími í hefðbundinni efnismeðferð eða um 57 daga og í málsmeðferð á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um 24 daga. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum frá Útlendingastofnun.

Tæplega 40 prósent mála voru afgreidd á innan við þremur mánuðum og tæp 40 prósent á þremur til sex mánuðum. Fimmtungur mála var afgreiddur á sex til tólf mánuðum og þrjú prósent mála tók lengri tíma en eitt ár að afgreiða.

Umsækjendum í þjónustu fækkaði um fjórðung á árinu 2020, úr 600 í 445. Líkt og árið á undan dvaldi meirihluti einstaklinga í þjónustu sveitarfélaga en við árslok voru um 270 einstaklingar í þjónustu hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarkaupstaðar og Reykjanesbæjar og 175 einstaklingar í þjónustu hjá móttöku- og þjónustuteymi Útlendingastofnunar.