Útlendingastofnun segir að umfjöllun fjölmiðla um mál nemanda við FÁ sem standi til að vísa úr landi byggi ekki á réttum upplýsingum. Stofnunin geti þó ekki tjáð sig frekar um einstök mál.
Fram kom í Fréttavaktinni í gærkvöldi að til stæði að vísa 18 ára gamalli pakistanskri stúlku sem búsett hefur verið á Íslandi í fjögur og hálft ár úr landi. Stúlkan er nemandi Fjölbrautaskólans við Ármúla og samkvæmt skólameistara hennar barst stúlkunni nýlega bréf um að hún fengi 15-daga frest áður en kæmi til brottvísunar.
Magnús Ingvason, skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla, segist ekki enn hafa fengið staðfestar upplýsingar um nákvæm atriði málsins en býst við því að stúlkan hafi fengið bréfið í hendurnar þar sem hún er nýorðin 18 ára.
Útlendingastofnun þvertekur fyrir þá greiningu og segir stofnunin að frávísun úr landi geti aldrei byggt á því einu að einstaklingur verði 18 ára. Fleira þurfi að koma til og það sé ávallt tiltekið í ákvörðunum stofnunarinnar sem eru ítarlega rökstuddar.
Ríkislögreglustjóri segir einnig að engar fylgdir séu í kortunum næstu tvær vikurnar til annaðhvort Grikklands eða Pakistan. Hann segist heldur ekki kannast við þetta ákveðna mál og grunar að misskilningur gæti verið á ferð.