Albanskri fjöl­skyldu, þar á meðal konu sem gengin er átta mánuði og tveggja ára gömlum dreng, var í morgun vísað úr landi. Útlendingastofnun segir í tilkynningu, ó­líkt því sem fram kom í til­kynningu samtakanna No Bor­ders í morgun, að ekkert hafi komið fram í vottorði læknis frá kvennadeild um að flutningur úr landi myndi stefna öryggi konunnar í hættu og þess vegna hafi flutningi fjöl­skyldunnar ekki verið frestað.

Fjöl­skyldan beið þess að kæru­nefnd Út­lendinga­mála tæki mál þeirra fyrir. Í til­kynningu Útlendingastofnunar kemur fram að „ein­stak­lingum sem synjað hefur verið um al­þjóð­lega vernd og eiga ekki annan rétt til dvalar hér á landi lögum sam­kvæmt ber að yfir­gefa landið. Þegar á­kvörðun í máli er fram­kvæmdar­hæf sendir Út­lendinga­stofnun beiðni um lög­reglu­fylgd til stoð­deildar ríkis­lög­reglu­stjóra.“

Þar segir að undir­búningur stoð­deildar hvað varðar til­högun á lög­reglu­fylgd snúi meðal annars að því að meta stöðu ein­stak­lings í sam­ræmi við heil­brigðis­að­stæður. Er það eftir at­vikum gert með því að afla vott­orðs frá lækni um hvort við­komandi sé ferða­fær.

„Ef vott­orð liggur fyrir um að flutningur ein­stak­lings úr landi muni stefna öryggi hans í hættu þá er flutningi frestað þangað til á­standið breytist. Fyrir því eru for­dæmi bæði í til­viki barns­hafandi kvenna og ein­stak­linga sem glíma við veikindi. Þessu verk­lagi var fylgt í því máli sem nú er til um­fjöllunar eins og öðrum,“ segir í til­kynningunni.

Segir enn fremur að sam­kvæmt upp­lýsingum frá stoð­deild ríkis­lög­reglu­stjóra hafi hún aflað vott­orðs frá lækni á heilsu­gæslunni á Höfuð­borgar­svæðinu um að konan væri ferða­fær. Konan hafi sjálf leitað til kvenna­deildar Land­spítalans þar sem gefið var út annað vott­orð sem stoð­deild hafi fengið af­rit af. Segir í til­kynningu Út­lendinga­stofnunar að þar hafi, ó­líkt því sem fram kom í til­kynningu No Bor­ders, ekkert komið fram um að flutningur úr landi myndi stefna öryggi konunnar í hættu og þess vegna hafi flutningi fjöl­skyldunnar ekki verið frestað.

Til­kynning Út­lendinga­stofnunar í heild sinni:

Ein­stak­lingum sem synjað hefur verið um al­þjóð­lega vernd og eiga ekki annan rétt til dvalar hér á landi lögum sam­kvæmt ber að yfir­gefa landið. Þegar á­kvörðun í máli er fram­kvæmdar­hæf sendir Út­lendinga­stofnun beiðni um lög­reglu­fylgd til stoð­deildar ríkis­lög­reglu­stjóra.

Undir­búningur stoð­deildar varðandi til­högun á lög­reglu­fylgd snýr meðal annars að því að meta stöðu ein­stak­lings í sam­ræmi við heil­brigðis­að­stæður. Er það eftir at­vikum gert með því að afla vott­orðs frá lækni um hvort við­komandi sé ferða­fær. Ef vott­orð liggur fyrir um að flutningur ein­stak­lings úr landi muni stefna öryggi hans í hættu þá er flutningi frestað þangað til á­standið breytist. Fyrir því eru for­dæmi bæði í til­viki barns­hafandi kvenna og ein­stak­linga sem glíma við veikindi. Þessu verk­lagi var fylgt í því máli sem nú er til um­fjöllunar eins og öðrum.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá stoð­deild ríkis­lög­reglu­stjóra aflaði hún vott­orðs frá lækni á heilsu­gæslunni á Höfuð­borgar­svæðinu um að við­komandi væri ferða­fær. Við­komandi leitaði síðan sjálf til læknis á kvenna­deild Land­spítalans þar sem gefið var út annað vott­orð og stoð­deild fékk af­rit af. Í því vott­orði kom ekkert fram um að flutningur við­komandi úr landi myndi stefna öryggi hennar í hættu og því var fyrir­huguðum flutningi ekki frestað.