Kærunefnd útlendingamála staðfesti í dag að Útlendingastofnun var óheimilt að fella niður þjónustu við hælisleitendur sem ekki vildu fara í COVID-19 próf og svipta þau húsnæði og fæði.

„Réttlætið sigrar stundum,“ segir Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður eins þeirra sem var sviptur fæði og húsnæði í færslu sem hann deildi um málið á samfélagsmiðlum í dag

Þar segir hann enn fremur að málið sé fordæmisgefandi og því muni allir þeir aðilar sem að hafi farið á götuna síðustu vikur í þessum aðgerðum Útlendingastofnunar eiga rétt á fæði og húsnæði að nýju.

„Enn og aftur verður Útlendingastofnun uppvís að því að ganga fram með ólögmætum og ómannúðlegum hætti. Það hefur nú verið staðfest af hálfu kærunefndar útlendingamála og því ber að fagna,“ segir Magnús í færslu sinni.