Yfir sjö­tíu prósent eru sam­mála því að tekið verði gjald af er­lendum ferða­mönnum fyrir að­gang að ís­lenskum náttúru­perlum. Að­eins þrjá­tíu prósent eru hins vegar fylgjandi slíkri gjald­töku af Ís­lendingum. Þetta eru niður­stöður nýrrar könnunar sem Prósent fram­kvæmdi fyrir Frétta­blaðið.

Sam­kvæmt niður­stöðunum er rúmur helmingur svar­enda ó­sam­mála því að Ís­lendingar verði rukkaðir um að­gang að ís­lenskum náttúru­perlum en að­eins tólf prósent eru ó­sam­mála sam­bæri­legri gjald­töku af er­lendum ferða­mönnum.

Þegar svörin eru skoðuð nánar kemur í ljós að sex­tíu prósentum þeirra sem eru ó­sam­mála gjald­töku af Ís­lendingum finnst rétt að taka sam­bæri­legt gjald af er­lendum ferða­mönnum.

Ekki er mikill munur á af­stöðu til gjald­töku milli kynja og enginn munur er á af­stöðu íbúa höfuð­borgar­svæðisins og lands­byggðarinnar. Þá breyta tekjur fólks ekki miklu um af­stöðu til gjald­tökunnar, þótt ívið fleiri séu sam­mála gjald­töku meðal þeirra tekju­hæstu en þeirra sem hafa lægri tekjur. Stuðningur
við gjald­töku er minnstur í yngsta aldurs­hópnum, bæði hvað varðar er­lenda ferða­menn og Ís­lendinga, en hækkar jafnt og þétt með hækkandi aldri.

Um net­könnun var að ræða sem fram­kvæmd var dagana 22. júní til 4. júlí. Úr­takið var 2.000 ein­staklingar 18 ára og eldri. Svar­hlut­fallið var 50,8 prósent.

Í svari frá Lilju Al­freðs­dóttur ferða­mála­ráð­herra segir að gjald­taka í greininni sé til skoðunar. Fyrir­hugað sé að ráðast í tekju­öflun af ferða­mönnum frá og með 2024.

„Unnið verður að breytingum á fyrir­komu­lagi gisti­n­átta­gjalds í sam­vinnu við greinina og sveitar­fé­lögin með það að mark­miði að sveitar­fé­lögin njóti góðs af gjald­tökunni,“ segir í svari ráð­herra.