Þingflokkar náðu saman í hádeginu í dag um hvaða mál hljóta afgreiðslu Alþingis yfir jólafrí og verður útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar, dómsmálaráðherra, ekki eitt af þeim.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar sér í lagi þingflokkur Pírata hafa kallað eftir því að málið verði ekki afgreitt fyrir jól og lögðu fram tillögu þess efnis fyrir helgi sem var felld.
Frumvarpið var afgreitt úr þingnefnd í síðustu viku en Þórhildur Sunnar Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segir í samtali við Fréttablaðið að nefndin muni halda áfram að ræða frumvarpið.
Þingflokkur Pírata hefur kallað eftir frumvarpið í stjórnskipulegrar úttektar á frumvarpið en til þess þarf meirihluta samþykkja. Spurð um hvort það hafi verið samið um að fara í slíka úttekt svarar Þórhildur því neitandi.
„Það var alveg ljóst að það var ekki möguleiki. Við fórum fram á og fengum í gegn í staðinn er að málið verður tekið til efnislegrar umfjöllunar í nefndinni áður en það fer til annarrar umræðu eftir áramót,“ segir Þórhildur sem vonast til að slík umfjöllun mun leiða í ljós vankanta á frumvarpinu.
„Þetta er allt að smella einhvern veginn“
Þingflokksformenn hafa ekki enn komið sér saman um hvaða mál fara á dagskrá fyrir jól. Enn á eftir að afgreiða fjárlög, fjáraukalög auk fleiri mála. Þingflokksformenn funduðu fram eftir kvöldi í gær og aftur í morgun.
„Þetta er allt að smella einhvern veginn,“ segir Birgir Ármannsson forseti Alþingis. „Fundur sem þau [innsk. blm. þingflokksformenn] áttu í morgun sýnist mér hafa lokað þeim lausu endum sem voru fyrir hendi. Þannig við erum að stefna að því að ljúka á föstudag eða laugardag ef vel gengur.“
