Mikil aukning hefur verið í útköllum vegna dauðra katta upp á síðkastið og segir Sandra Ósk Jóhannsdóttir, ráðgjafi og sjálfboðaliði hjá Dýrfinnu, að erfitt sé að segja til um hvað veldur.

Sandra Ósk segir ekki hægt að fullyrða um að fleiri dauðir kettir séu að finnast nú en áður þar sem mikil vitundarvakning hefur orðið á samfélagsmiðlum þar sem fólk lætur vita þegar það verður vart við dauða, týnda eða slasaða ketti.

„Við erum að fá þessar upplýsingar beint í æð og það er meira um að maður sé að taka eftir þessum tilkynningum,“ segir Sandra Ósk sem bætir þó við að mögulega geti aukið myrkur og hljóðlátari bílar haft áhrif líka.

„Til dæmis á haustin þá er alltaf aukning á dánum köttum, vegna aukins myrkurs og kettir eru að elta laufblöð.“ segir hún.

Aðspurð segir Sandra Ósk félagasamtökin Dýrfinnu, sem hjálpar týndum gæludýrum og eigendum þeirra, fá að meðaltali eina til tvær tilkynningar á dag vegna dauðra katta.

Mikilvægt sé þó að muna að ekki allar tilkynningar berist til þeirra þar sem lögreglan fái einnig tilkynningar.

Að sögn Söndru Óskar skanna sjálfboðaliðar hjá Dýrfinnu örmerki hjá köttum um leið og þeir eru sóttir svo hægt sé að láta eigendur vita sem allra fyrst. Lögreglan fari með dauða ketti á dýraspítalann í Víðidal þar sem hræin eru sett í gám sem er svo tæmdur næsta virka dag og örmerki skönnuð.

„Það er ótrúlega mikilvægt að fólk viti að það þarf að örmerkja ketti samkvæmt lögum um velferð dýra, reglugerð um velferð dýra og samþykkt hvers bæjarfélags fyrir sig,“ segir Sandra Ósk og bætir við að þannig sé hægt að láta eigendur vita um leið.

„Það er sárt að vita ekki hvar kötturinn þinn er. Við erum að reyna allt sem við getum til að fólk viti hvar kötturinn þeirra er niðurkominn,“ segir hún.

Sandra Ósk minnir fólk að banka á húddið á bílum áður en það kveikir á þeim á yfir vetrartímann þar sem kettir sækist í hlýjuna.

„Við vorum með mál á Álftanesi þar sem köttur fór í vélarrými og maður keyrði af stað. Vélarljósin fóru öll á fullt svo hann stoppar og bíður í hálftíma þar til ljósin eru farin og fer með bílinn á verkstæði.

Þá kemur í ljós tætt ól í vélarrýminu og fullt af felldi en enginn köttur sem þýðir að kötturinn hefur náð að sleppa úr bílnum en við vitum ekki enn þá hvort að kötturinn sé lifandi eða dáinn þannig við höfum verið að leita,“ segir Sandra Ósk og ítrekar mikilvægi þess að banka á húddið áður en lagt er af stað.