Staðan í Útkinn í Þingeyjarsveit hefur verið færð af hættustigi niður í óvissustig. Ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands telur ekki lengur ástæðu til viðbúnaðar vegna skriðuhættu á svæðinu og er veðurspá góð fyrir næstu daga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Ákveðið var að færa viðbúnaðarstigið niður á óvissustig þar sem enn hefur hreinsunarstarfi ekki verið lokið á svæðinu. Þá sé einnig vatnsagi við veginn og hann viðkvæmur.

Vegurinn um Útkinn hefur verið opnaður fyrir almenna umferð en vegfarendur eru hvattir til að fara varlega.

Rýming var aflétt í Útkinn á þriðjudaginn síðastliðinn og fengu íbúar að halda til síns heima. Vegurinn um Útkinn hélst þó lokaður fyrir almennri umferð þar til í dag.