Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunarinnar, WHO, hefur viður­kennt að stofnunin hafi verið of fljót til að úti­loka kenningu um að kóróna­veiran sem veldur CO­VID-19 hafi komið af rann­sóknar­stofu. Í skýrslu stofnunarinnar frá því í lok mars síðast­liðnum var slík kenning sögð mjög ó­lík­leg og frekar talið að veiran hafi borist frá leður­blökum í mann­fólk í gegnum önnur dýr.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfir­maður WHO, greindi frá því í gær að það hafi reynst erfitt að afla frum­gagna þegar rann­sóknar­teymi á vegum stofnunarinnar hélt til Wu­han fyrr á árinu, þar sem veirunnar varð fyrst vart, til að rann­saka upp­runa veirunnar og hefur nú kallað eftir frekari gagn­sæi af hálfu Kín­verja í tengslum við far­aldurinn.

Að því er kemur fram í frétt AP News um málið sagði Ghebreyesus í sam­tali við blaða­menn í Genf í gær að hann sé sjálfur ó­næmis­fræðingur og viti því út á hvað málið gengur. „Ég hef starfað á rann­sóknar­stofu, og slysin gerast,“ sagði Ghebreyesus og bætti við að það væri mikil­vægt að kanna ná­kvæm­lega hvað gerðist svo hægt sé að stað­festa upp­runa veirunnar.

Öfgamenn héldu kenningunni á lofti

Fyrr í far­aldrinum voru sér­fræðingar og kín­versk yfir­völd fljót að slá kenningar um rann­sóknar­stofu­leka af borðinu en meðal þeirra sem studdu við slíkar kenningar var Donald Trump, þá­verandi Banda­ríkja­for­seti. Aðrir sem að­hylltust kenninguna voru á­litnir öfga­menn og Ant­hony Fauci, helsti sér­fræðingur banda­rískra stjórn­valda í smit­sjúk­dómum, þver­tók fyrir það.

Fyrir nokkrum mánuðum fóru sér­fræðingar þó að efast, meðal annars eftir að Was­hington Post greindi frá leyni­legum upp­lýsingum í maí um að rann­sóknar­menn í Wu­han hafi veikst í nóvember 2019. Fauci sjálfur virtist síðan draga í land með full­yrðingar sínar og sagði nauð­syn­legt að rann­saka alla anga málsins.

Xa­vi­er Ber­rera, heil­brigðis- og fé­lags­mála­ráð­herra Banda­ríkjanna, kallaði í kjöl­farið eftir því að WHO myndi leyfa al­þjóð­legum sér­fræðingum að rann­saka gögnin sem var aflað af teymi WHO í Wu­han. Bret­land, Evrópu­sam­bandið, Ástralía og Japan tóku þá undir á­kall Banda­ríkja­manna og kröfðust þess að frekari rann­sóknir yrðu gerðar án af­skipta WHO.

Frá því að veirunnar varð fyrst vart í desember 2019 hafa tæplega 189 milljón tilfelli smits greinst um allan heim og tæplega 4,1 milljón dauðsföll verið skráð en talið er að raunverulegur fjöldi sé mun meiri.