„Við þurfum að fara í alveg gagngera endurskoðun á þessu,“ sagði Sigríður Björnsdóttir, yfirdýralæknir í hrossasjúkdómum hjá Matvælastofnun (MAST), í Fréttavaktinni á Hringbraut í gærkvöldi um eftirlit með blóðtöku úr fylfullum hryssum.

Sigríður var til svara vegna myndbands alþjóðlegra dýraverndunarsamtaka af illri meðferð á slíkum hryssum sem birt var um helgina.

Aðspurð hvort ástæða sé til að stöðva blóðmeraiðnað segir Sigríður það erfiða spurningu. „Umfram allt þarf að sjá til þess að það sé farið eftir þeim reglum sem eru settar.“

Þá segir Sigríður MAST hafa tíma til að endurskoða rammann um starfsemina, sem sé árstíðabundin og langt í næsta blóðtökutímabil.

Sigríður segir myndbandið hafa komið sér verulega á óvart.

„Ég hef nú sjálf verið töluvert í eftirliti með þessari starfsemi og þetta er ekki sú birtingarmynd sem ég hef séð á mínum ferðum,“ segir Sigríður. Hún útilokar ekki að kæra verði lögð fram.

Sigríður segist þó eiga eftir að grandskoða myndbandið. „Það er auðvitað hægt að klippa saman vond augnablik. Ég á eftir að fara dýpra í það hvað stendur raunverulega á bak við þetta, hversu langvarandi eða viðvarandi þetta er og á eftir að taka skýrslur af fólki sem þarna kemur að.“