Thor Aspelund, prófessor í líftölufræði við Háskóla Ísland, útilokar ekki að Íslendingar gætu átt von á annarri bylgju COVID-19 faraldursins en þetta kom í viðtali við hann í hádegisfréttum RÚV í dag. Spálíkan HÍ fyrir faraldurinn var birt fyrr í dag þar sem rýnt er í þróun faraldursins næstu tíu daga.

Að sögn Thors er nú verið að skoða smitstuðulinn hér á landi, það er hvað smit eru að dreifast hratt í samfélaginu, en ef stuðullinn er yfir einum þá er hver einstaklingur sem greinist utan sóttkvíar að smita fleiri en einn einstakling.

„Því miður er hann enn þá rétt yfir einum, eða tæplega 1,5, þannig ástandið er tvísýnt áfram og þá er ekki útilokað að við fáum aðra bylgju inn í þetta ástand ef að aðgerðirnar bíta ekki núna og við tökum bara virkilega þátt í þessu,“ sagði Thor í samtali við RÚV.

Aðspurður um hvort tekið sé tillit til þróunar faraldursins erlendis sagði Thor svo ekki vera en að þau viti af því. „Kannski eina sem er núna er að við spáum styttra fram í tímann. Ég held að óvissan sé bara svo mikil,“ sagði Thor og bætti við að þau þyrftu að vera varkárari og taka styttri sýn fram í tímann.

67 ný smit og andlát á Landspítala

Líkt og greint var frá fyrr í dag greindust 67 innanlandssmit síðastliðinn sólarhring auk þess sem einn sjúklingur á Landspítalanum lést í nótt. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greinir frá því í samtali við RÚV að um hafi verið að ræða konu á níræðisaldri.

Þórólfur sagði enn fremur í samtali við RÚV að draga mætti þær ályktanir af spálíkani HÍ að faraldurinn gæti verið að fara niður á við en taka þyrfti spálíkaninu með fyrirvara. Hann hefur þegar skilað inn tillögum sínum um aðgerðir til að bregðast við faraldrinum til heilbrigðisráðherra en núverandi aðgerðir miða við 20 manna samkomubann og tveggja metra nálægðarreglu á landinu öllu.

Hann sagðist telja að það þurfi að fara hægt í tilslakanir þar sem það þarf ekki mikið til til þess að ný smit fari að greinast. „Þannig að ég held að það borgi sig að aflétta hægt og lenda á réttum stað heldur en að fara of hratt og þurfa að herða aftur,“ sagði Þórólfur í samtali við RÚV.

Fleiri í sóttkví við greiningu

Í spálíkani Háskóla Íslands er möguleg þróun skoðuð og er þar miðað við tvær sviðsmyndir, annars vegar að núverandi aðgerðir hafi áhrif á smitstuðulinn líkt og gerðist við 20 manna samkomubann í fyrstu bylgjunni, og hins vegar að aðgerðirnar hafi ekki tilætluð áhrif og smitstuðullinn verður svipaður næstu tíu daga.

Smitstuðullinn er nú áætlaður 1,4 og hefur farið lækkandi en gera má ráð fyrir að nokkur fjöldi hafi smitast síðustu daga. Að meðaltali hefur um 50 prósent þeirra sem greinst hafa með veiruna verið í sóttkví við greiningu og fer þeim fjölgandi þar sem öflug smitrakning spilar stórt hlutverk.

Óvissa ef smitstuðullinn verður áfram yfir einum

Grundvallaratriði er nú að lækka smitstuðulinn þannig hann sé undir einum en meðan hann er yfir einum verður mikil óvissa. Thor sagði jákvætt að hlutfall fólks í sóttkví við greiningu færi fjölgandi og bendi að einhverju leiti til þess að verið sé að ná utan um ástandið. „Þetta verður auðvitað að halda svoleiðis áfram því annars getum við misst þetta í veldisvísisvöxt,“ sagði Thor.

„Það er einnig mikilvægt að samfélagið allt fylgi tilmælum um sóttvarnir þannig að fjöldi greindra einstaklinga utan sóttkvíar lækki. Þannig gætum við séð smitstuðullinn lækka á næstu vikum. Í þeirri stöðu verður hægt að spá til lengri tíma um hámark og hvernig bylgjan muni hnigna,“ segir í spálíkaninu.

Spálíkan Háskóla Íslands má finna hér.