Sí­fellt fleiri til­felli kóróna­veiru­smits eru nú að greinast í Bret­landi þrátt fyrir strangar tak­markanir en Matt Hancock, heil­brigðis­ráð­herra Bret­lands, greindi frá því í sam­tali við BBC að mikið álag væri á yfir­völdum vegna fjölda smita. Þá úti­lokaði hann það ekki að tak­markanir yrðu hertar enn frekar.

Boris John­son, for­sætis­ráð­herra Bret­lands, til­kynnti síðast­liðinn mánu­dag að út­göngu­bann yrði sett á vegna fjölda smita og má fólk því ekki yfir­gefa heimili sín nema að um sé að ræða brýna nauð­syn. John­son sagði þá að það væri gífur­lega mikil­vægt að fólk fylgi reglunum.

Hancock sagði í sam­tali við BBC að ekki stæði til að slaka á tak­mörkunum þar sem það gæti reynst ban­vænt en hann vildi heldur ekki tjá sig um það hvort ríkis­stjórnin myndi herða reglurnar. Hann úti­lokaði það þó ekki en margir hafa lagt til að tak­markanirnar yrðu hertar líkt og í út­göngu­banninu í vor.

Geta bólusett hundruð þúsunda á hverjum degi

Bretar hafa þegar hafið bólu­setningar gegn CO­VID-19 en breska lyfja­eftir­litið veitti bólu­efni Pfizer og BioN­Tech neyðar­heimild í byrjun desember. Bólu­efni AstraZene­ca og Ox­ford há­skólans var síðan sam­þykkt þann 30. desember síðast­liðinn og bólu­efni Moderna í síðustu viku.

Gert er ráð fyrir að hægt verði að bólu­setja 15 milljón manns fyrir miðjan febrúar­mánuð en um 200 þúsund skammtar af bólu­efni eru nú gefnir dag­lega í Bret­landi. Nú þegar hafa um 2 milljón manns fengið bólu­efni gegn CO­VID-19 og er talið að sú tala muni hækka veru­lega á næstu dögum.

Breta séu „í auga stormsins“

Í gær voru tæp­lega 55 þúsund til­felli stað­fest í Bret­landi en eins og staðan er í dag hafa tæp­lega 3,1 milljón manns greinst með veiruna og tæp­lega 82 þúsund látist eftir að hafa greinst með CO­VID-19.

Sér­fræðingar vara nú við stöðunni, þar á meðal vísinda­maðurinn Peter Hor­by en hann segir Breta vera „í auga stormsins.“ Þá hefur hjúkrunar­for­stjóri Eng­lands varað við því að spítalar gætu lent í erfið­leikum ef ekki tækist að ná stjórn á far­aldrinum í bráð.

Yfir­völd munu í vikunni ráðast í sýna­töku­á­tak til þess að greina smit í sam­fé­laginu en sam­kvæmt greiningu Edge Health gætu einn af hverjum fimm hafa fengið veiruna án þess að vita af því, alls um 12,4 milljón manns.