Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri sagði í umræðum á borgarstjórnarfundi í gær um húsnæðisvanda Fossvogsskóla að skólaráð skólans og yfirstjórn borgarinnar með skólum, umhverfi og skipulagi hefði brugðist hratt og vel við þegar mygla fannst fyrst í skólanum.

Hann útilokar ekki að skólinn verði rifinn séu til gögn sem styðji svo „róttæka lausn“. Hann segir mygluvanda Kársnesskóla hafa verið á mun verri, en sá skóli var rifinn fyrir skömmu eftir að mygla fannst þar árið 2017.

Mál Fossvogsskóla hefur verið óleyst í tvö ár og hefur borgarstjóri ekki fyrr tekið þátt í umræðum um málið. Umræðan í gær stóð í á aðra klukkustund og var á dagskrá að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. "Löngu tímabær umræða", sagði borgarstjóri.

Snör handtök - áhyggjur reifaðar fyrst 2018

Málið teygir sig til ársins 2018 en þá var áhyggjum af loftgæðum og heilsufari barna í skólanum komið á framfæri við skólaráðið. Ráðið sendi svo brét til borgaryfirvalda í janúar 2019 og kemur málið þá fyrst til kasta borgarinnar.

“Hér hefur fólk talað um sein viðbrögð og einhver vettlingatök,“ sagði Dagur en þvert á móti hafi snör handtök verið viðhöfð þegar skólinn var rýmdur snemma árs 2019 aðeins sex vikum eftir að niðurstöður um myglu komu í ljós og börnin þá færð í húsnæði í Laugardalnum tímabundið. Farið hefði verið í mjög umfangsmiklar aðgerðir og aukafjárveiting samþykkt í borgarráði. „Og það var gengið býsna langt í að gera úrbætur,“ sagði Dagur í ræðu.

Ekki „eittskipti fyrir öll verkefni“

„Ég vil bara vekja athygli borgarstjórnar á því að skólaráðið tók þetta mjög alvarlega, það fékk tvær umsagnir strax frá foreldrum og flaggaði á málið og yfirstjórn skóla-og frístundasviðs og yfirstjórn umhverfis- og skipulagssviðs og framkvæmdadeildin brást strax við og við samþykktum fjármuni til verksins, á innan við tveimur mánuðum,“ sagði Dagur um upphafstíma málsins. Dagur nefndi einnig að vegna þess hve viðamiklar aðgerðir farið hafi verið í af hálfu borgarinnar þá hafi verið væntingar hjá sumum um það væri verið að leysa málið „í eitt skipti fyrir öll“ en þannig væri málið ekki vaxið.

Dagur sagðist ekki vitað til þess að neinn ágreiningur hefði verið um í hvaða framkvæmdir var farið en eina gagnrýnin kæmi frá einstaka borgarfulltrúum sem segðu sumir eina leiðina vera þá að rífa skólann. „Og ég kannast ekki við að það liggi nein greining eða rök á bak við akkúrat þá afstöðu annað en áhyggjur af því að það sem var farið í væri bara ekki nóg en svo viðamikil ákvörðun hlýtur að verða að byggja á ástandsmati á viðkomandi húsnæði vegna þess að raki er mjög víða í samfélaginu.“

„Það er ekki hægt að útiloka að grípa til svo róttækra aðgerða í einstaka málum en gögnin verða að styðja það,“ sagði Dagur.

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í skóla-og frístundaráði
Mynd/Valgarður Gíslason

„Þegar skólanum var lokað var það meðal annars vegna þessara tveggja hættulegu tegunda af myglu, kúlustrýnebba og litafrugga sem getur valdið alvarlegum veikindum. Við síðustu sýnatöku kom í ljós að þessi mygla er enn til staðar í skólanum. Nú spyr ég bara hvers vegna eru börn og starfsfólk í skólanum þegar þessi alvarlega mygla er að finnast núna um 3 árum eftir að þetta ferli fór af stað“, segir Valgerður Sigurðardóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem situr í skóla-og frístundaráði sem hefur viðrað þá skoðun sína að rífa ætti skólann. Í umræðunum í gær sagði hún alvarlegt þegar sviðsstjóri skóla- og frí­stundaráðs Reykja­vík­ur­borg­ar, segi við fjölmiðla að engin mygla finnist lengur í skólanum heldur bara myglugró.

„Það er ekkert skrítið að það sé bara búið að finna myglugró því sýnin sem hafa verið tekin eru til að greina myglugró ekki myglu. Það hefur ekkert verið leitað markvisst af myglu en til þess að finna hana þá eru tekin kjarnasýni og eftir minni bestu vitund þá hefur einungis eitt kjarnasýni verið tekið á öllum þessum tíma. Ég líkt og foreldrar barna í skólanum hef þó ekki fengið að sjá skýrslu Verkís í heild sinni, heldur aðeins minnisblað úr henni. Það ættu allir sem koma að málinu orðið að vita og þekkja muninn á því hvernig við leitum að myglu og myglugróum og vita að hverju sé verið að leita í skólanum“, kom fram í máli Valgerðar.

Foreldrarnir börðust

Í máli hennar kom einnig fram að það fyrsta sem hafi verið gert þegar mygla kom upp var að fá Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur til þess að taka út loftgæði í skólanum og taldi eftirlitið ekkert vera að. Eftir langa baráttu foreldra þá hafi verkfræðistofa verið fengin í málið en Reykjavíkurborg hafi aldrei haft frumkvæði af sýnatöku í skólanum. Valgerður bætti við: „Foreldrar hafa þurft að berjast fyrir því með kjafti og klóm, fyrir því að það verði tekin sýni, við skulum hafa það alveg á hreinu,“ og benti á að í marga mánuði hefði nýgert þak í vesturhlutan lekið án afskipta neins.

Enn er unnið gegn myglugró í Fossvogsskóla.
Mynd/Ernir Eyjólfsson

Haldið ferður áfram að gera við ýmsa staði í skólanum, aðallega í vesturhlutanum og er áætlað að gera á ný úttekt á skólanum að því loknu. Engin framkvæmdaáætlun hefur þó verið kynnt sérstaklega en Verkís sér enn um framkvæmdir og mælingar fyrir Reykjavíkurborg.