Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE), útilokar ekki að fyrirtækið muni aftur eiga aðkomu að skimun við landamærin.

„Við erum alltaf að ræða alls konar möguleika og við erum alltaf til umræðu um að koma meira inn í þetta en spurningin er bara hvort að það væri skynsamlegt á þessu augnabliki að láta fólk streyma inn í landið í stríðum straumum,“ segir Kári í samtali við Fréttablaðið.

Karl Gústaf Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, sagði við Fréttablaðið fyrr í dag að deildin væri nú komin að þolmörkum eftir mikla fjölgun landamæra- og innanlandssýna.

Ástandið orðið grafalvarlegt

Kári leggur þó áherslu á að stærsta og mikilvægasta verkefnið þessa stundina sé að rekja þau samfélagssmit sem greinst hafi að undanförnu.

„Við erum að takast á við faraldur sem er að vega að lífsháttum okkar í þessu samfélagi sem við erum hluti af og auðvitað erum við opin fyrir þeim möguleika að leggja okkar að mörkum til að takast á við það.“

Kári segir ástand faraldursins hér á landi vera orðið grafalvarlegt.

„Þetta er orðinn ansi stór hópur aðila sem hefur smitast af þessari veiru sem ekki er hægt að tengja saman. Það eina sem tengir þau saman er að þau eru með veiru með sama stökkbreytingarmynstur. Það bendir til þess að það sé fólk þarna úti sem við höfum ekki fundið enn þá sem tengi saman þessa hópa.“

„Við erum að hjálpa til með það eins og við getum og erum að beina kröftum okkar að því akkúrat núna en þetta er samvinnuverkefni og við bara sjáum til hvað gerist næst.

Hefur áhyggjur af stöðu mála

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur lýst yfir áhyggjum sínum af því að fjöldi farþega hafi farið fram úr skimunargetu Landspítalans síðustu daga. Þá skoða stjórnvöld hvernig takmarka megi fjölda ferðamanna hingað til lands svo fjöldinn rúmist innan skimunargetu.

Á sama tíma hefur það verið rætt hvort til greina komi að byrja aftur að skima farþega frá Danmörku og Þýskalandi vegna fjölgunar COVID-19 tilfella í þeim ríkjum. Farþegar þaðan þurfa nú hvorki að fara í skimun né sóttkví við komuna til landsins.

Að sögn Karls Gústafs Kristinssonar, yfirlæknis á sýkla- og veirufræðideild, myndi slík breyting ganga mjög illa upp í framkvæmd nema til takmarkana komi.

Drógu sig úr skimuninni í byrjun júlí

Kári tilkynnti þann 6. júlí að ÍE myndi hætta aðkomu sinni að landamæraskimun stjórnvalda. Fram að því hafði fyrirtækið séð um alla greiningu sýna frá því skimunin hófst þann 15. júní.

Úr varð mikið upphlaup af hálfu stjórnvalda þar sem talið var að sýkla- og veirufræðideild Landspítalans gæti einungis greint í kringum 500 sýni á sólarhring og löng bið var eftir öflugari greinartækjum.

Gripið var til þess ráðs að skima fimm landamærasýni í einu til auka skimunargetu og tók Landspítalinn alfarið við greiningu sýna þann 19. júlí. Gert er ráð fyrir því að skimunargeta sýkla- og veirufræðideildarinnar eigi eftir að margfaldast þegar nýtt greiningartæki verður komið í gagnið undir lok árs.