Bæjarstjórn Fjallabyggðar mun sækja það stíft að Ofanflóðasjóður greiði að fullu eða hluta kostnað við flutning skíðasvæðisins á Siglufirði í vor enda brýnt að hefja framkvæmdir næsta vor. Útilokar hún ekki málaferli, hafni sjóðurinn greiðsluþátttöku.

„Samkvæmt lögum á Ofanflóðasjóður annaðhvort að verja svæði eða, ef hagkvæmara þykir, að kaupa upp eða flytja eignir,“ segir Elías Pétursson bæjarstjóri. „Sjóðurinn hefur haft það verklag að vilja aðeins standa straum af kostnaði þegar kemur að íbúðarhúsnæði en það stendur skýrt í lögunum að sjóðurinn eigi að vernda líf fólks og eignir. Skipulögð frístundasvæði þar sem fólk, íbúar og ferðamenn safnast saman, hljóta að falla þar undir.“

Hefur lengi staðið í stappi við ríkið

Stjórn Leyningsáss, sjálfseignarstofnunar sem rekur skíðasvæðið, hefur lengi staðið í stappi við ríkið eftir að hættusvæði var útfært. En þegar mannvirkin voru reist árið 1988 uppfylltu þau öll þáverandi skilyrði. Lengi hefur staðið til að færa skíðasvæðið en kostnaðurinn við flutninginn hefur verið talinn vel á þriðja hundrað milljónir króna.

Hefur stjórn Leyningsáss óskað eftir því að Fjallabyggð geri fjárkröfu á Ofanflóðasjóð, verði hann ekki við beiðni um greiðsluþátttöku og sæki hana fyrir dómstólum.

„Ég tel, á þessari stundu, ekki tímabært að taka afstöðu til málshöfðunar eins og Leyningsás óskar eftir í erindi sínu. En lögin eru okkar megin í þessu máli,“ segir Elías, um hvort bærinn hyggist höfða mál gegn sjóðnum.

Brýnt að færa svæðið

Eftir að snjóflóð féll á skíðaskálann þann 20. janúar er ljóst að brýnt er að færa svæðið, en minnstu mátti muna að starfsmaður yrði fyrir því. Þá hefur Vegagerðin einnig sett á pressu, því að til stendur að leggja veg upp að nýju byrjunarsvæði í sumar. Ekki er hægt að klára veginn án þess að taka lyfturnar í sundur og loka svæðinu.

„Það er mjög áríðandi að við leysum úr þessu máli fyrir næsta sumar til að hægt sé að ljúka yfirstandandi vegaframkvæmdum og flutningi upphafssvæðis skíðasvæðisins, þannig að hægt verði að opna svæðið næsta haust,“ segir Elías. Skíðasvæðið sé bæði afar mikilvægt samfélaginu og atvinnulífinu á Siglufirði.

Hreinsunarstarf er nú vel á veg komið á skíðasvæðinu og upp verður sett bráðabirgðahúsnæði og aðstaða. Elías segir að menn hafi lagst á eitt við hreinsunina og brátt verði hægt að opna svæðið fyrir gestum. „Ef við erum mjög heppin með veður og allt gengur vel er möguleiki að opna um næstu helgi.“