„Mér finnst þetta mjög undar­leg af­staða. Þetta er opin­ber við­burður,“ segir Kristinn Magnús­son, for­maður Blaða­ljós­myndara­fé­lags Ís­lands, um á­kvörðun Edition-hótelsins um að út­hýsa blaða­ljós­myndurum.

Kristinn segir þetta í fyrsta sinn sem hann heyri af við­líka banni, þar sem einka­fyrir­tæki bannar blaða­ljós­myndurum að­gang að opin­berum við­burði á vegum þriðja aðila.

„Mér finnst þessi þróun ekki til góða. Það er sí­fellt verið að þrengja að blaða­ljós­myndurum við að vinna vinnuna sína, hægt og ró­lega. Þetta er bar­átta sem þarf að taka upp,“ segir hann.

Að sögn Kristins má líta svo á að blaða­ljós­myndarar séu ekki ein­göngu að sinna vinnunni sinni með því að taka myndir. „Þetta er partur af því að skrá­setja sögu landsins og sögu þjóðar,“ segir hann. „Það að ljós­myndurum sé meinaður að­gangur að við­burðum, hversu stórir eða smáir sem þeir eru, er hálf­gerð rit­skoðun,“ segir Kristinn. „Það er rit­stýring á frétta­efni,“ bætir hann við.

„Það er sí­fellt verið að þrengja að blaða­ljós­myndurum við að vinna vinnuna sína, hægt og ró­lega. Þetta er bar­átta sem þarf að taka upp“

-Kristinn Magnússon, formaður Blaðaljósmyndarafélags Íslands

„Allir blaða­menn eru vel­komnir í Há­skóla­bíó á setningu RIFF,“ segir Hrönn Marinós­dóttir fram­kvæmda­stjóri RIFF. „En þetta eru reglur sem hótelið setur. Við stöndum fyrir RIFF en það er Edition-hótelið sem er að bjóða í mót­töku eftir sýningu á myndinni þar sem leik­stjórar og leik­konan verður. Hótelið er að bjóða í þessa veislu,“ segir Hrönn. Ís­lenska ríkið, Reykja­víkur­borg, RÚV og Ís­lands­stofa eru meðal styrktar­aðila RIFF 2022.

Að sögn Hrannar er RIFF ekki að greiða Edition-hótelinu fyrir að­stöðuna. „Þau buðust til að gera þetta og eru sam­starfs­aðilar okkar í þessu. Ég þekkti ekki þessar reglur og er fyrst að heyra af þessu núna.

Ljós­mynda­bannið hefur ekki borið á góma í okkar sam­tölum og ég man ekki eftir að þetta hafi verið reglan áður,“ segir hún. „Þetta hefur ekki verið reglan í hófum sem RIFF stendur fyrir.“

Sam­kvæmt heimildum blaðsins verður ekki bannað að nota far­síma með mynda­vél inni á hótelinu. Hótelið skýrir af­stöðu sína með vísan í reglur hótel­keðjunnar á heims­vísu. Edition-hótelið starfar undir vöru­merki banda­rísku hótel­keðjunnar Mariott International.