Samstöðumótmælin, sem nú standa yfir á Austurvelli vegna andláts George Floyd, eru vafalaust fjölmennasta samkoma sem haldin hefur verið á landinu síðan að samkomubann var sett á um miðjan marsmánuð. Talið er að hátt í tvö þúsund manns hafi verið saman komin á Austurvelli en samkomutakmarkanir sem nú eru í gildi banna samkomur fleiri en tvö hundruð manns.
Nákvæm talning á fólkinu, sem var komið saman á fundinn, liggur ekki fyrir en ljósmyndari Fréttablaðsins myndaði fundinn og þar sést að allavega hálfur Austurvöllurinn er fullur af fólki. Lögregla hefur áður talað um að þegar Austurvöllur er fullur af fólki við mótmæli geti verið þar allt að tíu þúsund manns. Lausleg talning Fréttablaðsins á mannskapnum nú gerir ráð fyrir að hátt í tvö þúsund hafi verið komin saman í dag, ef ekki fleiri.
Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Fréttablaðið að lögregla hafi ekki gert sérstakar ráðstafanir fyrir fundinn í dag. „Skipuleggjendur fengu leyfi frá Reykjavíkurborg til að vera með þennan útifund. Þeir velja auðvitað þetta stóra svæði og við lokum líka götum í kring þannig það verði enn þá stærra,“ segir hann.

„Skipuleggjendur ætluðu að vera með ákveðnar ráðstafanir til að gæta að sóttvörnum og við treystum þeim bara til að skoða það,“ sagði hann en Fréttablaðið ræddi við hann áður en að fundurinn hófst.
Fólki frjást að fara
Aðspurður hvort Austurvöllurinn og opin almenningssvæði falli undir samkomutakmarkanir, sem miða nú við að aðeins 200 manns megi koma saman, segir hann: „Það fer bara eftir því hvernig þú ætlar að skilgreina rými. Ég get ekki séð að Austurvöllurinn sé rými frekar en við færum að takmarka hvort það séu tvö hundruð manns á Laugavegi eða einhvers staðar á Lækjartorgi eða eitthvað. Það er erfitt að vera að setja einhverjar skorður á það.“
Hann bendir þá á að fólkið sem mæti á fundinn sé þar af fúsum og frjálsum vilja. „Það getur þá kosið að ná sér í tvo metrana ef að því sýnist. Svo er ljóst að ef að fólki finnst vera að því þrengt þá getur það labbað í burtu,“ segir Ásgeir.
Ekki náðist í Víði Reynisson hjá Almannavörnum við gerð fréttarinnar.