Sam­stöðu­mót­mælin, sem nú standa yfir á Austur­velli vegna and­láts Geor­ge Floyd, eru vafalaust fjöl­mennasta sam­koma sem haldin hefur verið á landinu síðan að sam­komu­bann var sett á um miðjan mars­mánuð. Talið er að hátt í tvö þúsund manns hafi verið saman komin á Austur­velli en sam­komu­tak­markanir sem nú eru í gildi banna sam­komur fleiri en tvö hundruð manns.

Ná­kvæm talning á fólkinu, sem var komið saman á fundinn, liggur ekki fyrir en ljós­myndari Frétta­blaðsins myndaði fundinn og þar sést að allavega hálfur Austur­völlurinn er fullur af fólki. Lögregla hefur áður talað um að þegar Austurvöllur er fullur af fólki við mótmæli geti verið þar allt að tíu þúsund manns. Laus­leg talning Frétta­blaðsins á mann­skapnum nú gerir ráð fyrir að hátt í tvö þúsund hafi verið komin saman í dag, ef ekki fleiri.

Ás­geir Þór Ás­geirs­son, yfir­lög­reglu­þjónn á höfuð­borgar­svæðinu, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að lög­regla hafi ekki gert sér­stakar ráð­stafanir fyrir fundinn í dag. „Skipu­leggj­endur fengu leyfi frá Reykja­víkur­borg til að vera með þennan úti­fund. Þeir velja auð­vitað þetta stóra svæði og við lokum líka götum í kring þannig það verði enn þá stærra,“ segir hann.

Fólk var saman komið til að sýna sam­stöðu og mót­mæla kyn­þátta­mis­rétti í Banda­ríkjunum og heiminum öllum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Skipu­leggj­endur ætluðu að vera með á­kveðnar ráð­stafanir til að gæta að sótt­vörnum og við treystum þeim bara til að skoða það,“ sagði hann en Frétta­blaðið ræddi við hann áður en að fundurinn hófst.

Fólki frjást að fara

Að­spurður hvort Austur­völlurinn og opin al­mennings­svæði falli undir sam­komu­tak­markanir, sem miða nú við að að­eins 200 manns megi koma saman, segir hann: „Það fer bara eftir því hvernig þú ætlar að skil­greina rými. Ég get ekki séð að Austur­völlurinn sé rými frekar en við færum að tak­marka hvort það séu tvö hundruð manns á Lauga­vegi eða ein­hvers staðar á Lækjar­torgi eða eitt­hvað. Það er erfitt að vera að setja ein­hverjar skorður á það.“

Hann bendir þá á að fólkið sem mæti á fundinn sé þar af fúsum og frjálsum vilja. „Það getur þá kosið að ná sér í tvo metrana ef að því sýnist. Svo er ljóst að ef að fólki finnst vera að því þrengt þá getur það labbað í burtu,“ segir Ás­geir.

Ekki náðist í Víði Reynis­son hjá Al­manna­vörnum við gerð fréttarinnar.