Með þessu erum við að skýra betur það sem var í eldri lóðaleigusamningi,“ segir Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, en Þingvallanefnd samþykkti á síðasta fundi sínum í desember að sumarhúsaeigendur innan þjóðgarðsins mættu ekki leigja húsin sín í gegnum airbnb, eða aðrar sambærilegar leigur. Um 70 sumarhús eru innan þjóðgarðsins og hafði nefndin fengið nokkrar fyrirspurnir frá sumarbústaðaeigendum sem vildu fá að setja húsin sín á slíkar síður.

Síðasti samningur var gerður við lóðahafa fyrir áratug og síðan hefur margt breyst þegar kemur að ferðamönnum og leigu á húsnæði, svo nefndin setti ákvæðið inn. „Í síðasta samningi stóð að það ætti ekki að vera með atvinnurekstur á lóðunum. Þeir samningar voru gerðir fyrir áratug og það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan og allar þessar síður verða til. Við vildum setja þetta skýrt inn þannig að það væri ekki neinn vafi.“

Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum

Töldu ákvðið ekki falla undir rekstur

Einhverjir sumarbústaðaeigendur töldu að þetta ákvæði félli ekki undir rekstur svo nefndin ákvað að hafa þetta eins skýrt og hægt væri. Auðvelt er að leigja sumarbústaði um allt land og við óformlega skoðun á airbnb, bungalo.com og álíka síðum má finna einn bústað innan þjóðgarðsins en töluvert marga í og við Þingvelli. Hægt var að hafa góðar tekjur af því að leigja bústaðina sína þó að nágrannarnir væru ekki alltaf sáttir við að þessi eða hinn væru að valsa um á lóðinni.

„Þetta getur reynt á í samskiptum fólks þegar eru nýir og nýir leigjendur eða nýir aðilar eru að koma. Nágrannar geta orðið þreyttir á því þó það hafi ekki reynt á það hér innan þjóðgarðsins því við höfum ekki leyft það,“ segir Einar.

Hann segir að þó að ákvæðið sé orðið skýrt og augljóst muni hann ekki sitja á kvöldin yfir tölvunni og leita að bústöðum sem eru til leigu. „Við erum ekki að fara í neinn leynilögregluleik. Við treystum lóðahöfum til að fara eftir þessu enda er þetta kristaltært núna í lóðasamningum.“