Úthlutun úr sviðslistasjóði, verkefnasjóði sjálfstætt starfandi atvinnuleikhópa, hefur tafist um rúman mánuð vegna þess að sérstakar viðspyrnuaðgerðir ríkisstjórnarinnar í þágu menningar og lista hafa enn ekki verið samþykktar af Alþingi.
Vanalega er úthlutað úr sviðslistasjóði um svipað leyti og listamannalaunum er úthlutað en tilkynnt var um listamannalaun ársins 2022 þann 13. janúar síðastliðinn.
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, tilkynnti í lok janúar að ríkisstjórnin hygðist verja 450 milljónir til að styrkja menningargeirann og þar af eru 75 milljónir eyrnamerktar fyrir sviðslistasjóð og listamannalaun til sviðslistamanna.
Í skriflegu svari frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu kemur fram að til stendur að úthluta tvisvar úr sviðslistasjóði á þessu ári. Fyrri úthlutunin samanstendur af 150 milljón króna árlegri úthlutun sjóðsins og mun fara fram á næstu dögum en seinni úthlutunin mun samanstanda af viðbótarframlagi ríkisstjórnarinnar og verður sérstakur umsóknarfrestur auglýstur á vormánuðum.
Að sögn Ragnhildar Zöega hjá Rannís verður úthlutað úr sviðslistasjóði í næstu viku. Upphaflega stóð til að úthluta aðeins einu sinni með viðbótarframlagi ríkisstjórnarinnar en þegar málið tafðist í þinginu var ákveðið að fara þá leið að úthluta tvisvar. Sjá svar menningar- og viðskiptaráðuneytisins í heild hér að neðan:
Á næstu dögum mun Sviðslistasjóður úthluta 150 milljónum króna, sem er reglubundin úthlutun úr sjóðum. Þá verða 75 milljónir til viðbótar auglýstar síðar á árinu en þær voru veittar til sjóðsins sem hluti af viðspyrnuaðgerðum ríkisstjórnarinnar í þágu menningarmála vegna heimsfaraldursins. Fjármálaráðuneytið hefur forræði á og leggur fram frumvarp til fjáraukalaga. Tímabundnar breytingar á lögum um listamannalaun hafa verið samþykktar í ríkisstjórn og eru nú hjá Alþingi til meðferðar.