Landskjörstjórn hefur lokið fundi sínum vegna kæru Magnúsar Davíðs Norðdahl, oddvita Pírata í Norðvesturkjördæmi, vegna meintra ágalla við framkvæmd Alþingiskosninganna í kjördæminu.
Fram kemur í tilkynningu frá landskjörstjórn að hún hafi lokið úthlutun þingsæta á grundvelli úrslita kosninganna og gefið út kjörbréf til þeirra frambjóðenda sem náðu kjöri sem alþingismenn og jafnmarga varamanna, sbr. XVI. og XVII. kafla laga um kosningar til Alþingis. Úthlutunin byggðist á skýrslum yfirkjörstjórna um kosningaúrslit í kjördæmum eftir Alþingiskosningarnar sem fram fóru á laugardaginn.
„Fellur það utan valdsviðs landskjörstjórnar að taka afstöðu til hugsanlegra ágalla á framkvæmd kosninga í einstökum kjördæmum eða hvort, og þá hvaða, áhrif slíkt hafi á gildi kosninga“ segir í tilkynningunni.
Magnús Davíð ræddi við Fréttablaðið er hann gekk af fundi landskjörstjórnar. Hann segist ekki ánægður með niðurstöðuna.
„Nei ég get nú ekki sagt það. Þetta er í samræmi við það sem ég bjóst við, nú er það bara Alþingis að taka afstöðu til þeirrar kosningakæru sem ég hef lagt fram. Bókunin sem ég lagði fram á þessum fundi er í samræmi við þá kæru. Við teljum alvarlega ágalla hafa verið á kosningunum í Norðvesturkjördæmi og við treystum því og trúum að Alþingismenn skoði þetta af sanngirni og alvöru. Eins og ég hef oft nefnt þá eru heilindi alls kerfisins undir. Uppspretta valdsins er í þingkosningum, þar veljum við löggjafarvaldið sem velur framkvæmdavaldið sem skipar síðan dómsvaldið. Þetta verður að vera rétt. Það verður að leiðrétta þessa gölluðu kosningu sem þarna fór fram. Eina leiðin til þess er að fram fari uppkosning og ég vonast til þess að svo verði.“
Telur þú mögulegt að ef galli var á kosningunum í Norðvesturkjördæmi gæti sama verið upp á teningnum annars staðar?
„Það virðist vera að í Norðvestur hafi verið margir alvarlegir ágallar. Það er alveg ljóst að versta niðurstaðan af þeim öllum væri að þessar kosningar yrðu látnar standa. Það væri versti kosturinn. Aðrir kostir sem vænlegir eru að það fari fram uppkosning í Norðvestur eða uppkosning á öllu landinu. Það eru skárri kostir.“
Hver telur þú að viðbrögðin verði við bókuninni?
„Ég á von á því að Alþingi skoði mína kæru alvarlega og ég bind miklar vonir við það að það fari fram uppkosning í Norðvesturkjördæmi. Það er eina rétta leiðin og ég held að Alþingismenn muni sjá það.“