Lands­kjör­stjórn hefur lokið fundi sínum vegna kæru Magnúsar Davíðs Norð­dahl, odd­vita Pírata í Norð­vestur­kjör­dæmi, vegna meintra á­galla við fram­kvæmd Al­þingis­kosninganna í kjör­dæminu.

Fram kemur í til­kynningu frá lands­kjör­stjórn að hún hafi lokið út­hlutun þing­sæta á grund­velli úr­slita kosninganna og gefið út kjör­bréf til þeirra fram­bjóð­enda sem náðu kjöri sem al­þingis­menn og jafn­marga vara­manna, sbr. XVI. og XVII. kafla laga um kosningar til Al­þingis. Út­hlutunin byggðist á skýrslum yfir­kjör­stjórna um kosninga­úr­slit í kjör­dæmum eftir Al­þingis­kosningarnar sem fram fóru á laugar­daginn.

„Fellur það utan vald­sviðs lands­kjör­stjórnar að taka af­stöðu til hugsan­legra á­galla á fram­kvæmd kosninga í ein­stökum kjör­dæmum eða hvort, og þá hvaða, á­hrif slíkt hafi á gildi kosninga“ segir í til­kynningunni.

Magnús Davíð ræddi við Frétta­blaðið er hann gekk af fundi lands­kjör­stjórnar. Hann segist ekki á­nægður með niður­stöðuna.

„Nei ég get nú ekki sagt það. Þetta er í sam­ræmi við það sem ég bjóst við, nú er það bara Al­þingis að taka af­stöðu til þeirrar kosninga­kæru sem ég hef lagt fram. Bókunin sem ég lagði fram á þessum fundi er í sam­ræmi við þá kæru. Við teljum al­var­lega á­galla hafa verið á kosningunum í Norð­vestur­kjör­dæmi og við treystum því og trúum að Al­þingis­menn skoði þetta af sann­girni og al­vöru. Eins og ég hef oft nefnt þá eru heilindi alls kerfisins undir. Upp­spretta valdsins er í þing­kosningum, þar veljum við lög­gjafar­valdið sem velur fram­kvæmda­valdið sem skipar síðan dóms­valdið. Þetta verður að vera rétt. Það verður að leið­rétta þessa gölluðu kosningu sem þarna fór fram. Eina leiðin til þess er að fram fari upp­kosning og ég vonast til þess að svo verði.“

Telur þú mögu­legt að ef galli var á kosningunum í Norð­vestur­kjör­dæmi gæti sama verið upp á teningnum annars staðar?

„Það virðist vera að í Norð­vestur hafi verið margir al­var­legir á­gallar. Það er alveg ljóst að versta niður­staðan af þeim öllum væri að þessar kosningar yrðu látnar standa. Það væri versti kosturinn. Aðrir kostir sem væn­legir eru að það fari fram upp­kosning í Norð­vestur eða upp­kosning á öllu landinu. Það eru skárri kostir.“

Hver telur þú að við­brögðin verði við bókuninni?

„Ég á von á því að Al­þingi skoði mína kæru al­var­lega og ég bind miklar vonir við það að það fari fram upp­kosning í Norð­vestur­kjör­dæmi. Það er eina rétta leiðin og ég held að Al­þingis­menn muni sjá það.“