Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur úthlutað 138 milljónum króna í sérstakt byggðarframlag til átta byggingarverkefna á landsbyggðinni.

Verkefnin sem fengu úthlutað eru í Norðurþingi, Reykhólahreppi, Snæfellsbæ, Skagafirði, Strandabyggð, Vesturbyggð og á Seyðisfirði.

Þetta er í fyrsta sinn sem byggðarframlagi er úthlutað en því er ætlað að styðja við uppbyggingu á svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging nýrra íbúða hefur verið í lágmarki vegna þess að byggingarkostnaður er hærri en markaðsvirði fasteignanna. Verkefnin sem fengu úthlutað byggðaframlagi snúa meðal annars að uppbyggingu leiguhúsnæðis fyrir einstaklinga undir tekju- og eignamörkum og annarra sértækra húsnæðisúrræða sveitarfélaga.

Framlögin voru hluti af úthlutun HMS til byggingar og kaupa á 600 hagkvæmum leiguíbúðum víðsvegar um landið, svokölluðum almennum íbúðum. Alls nema stofnframlögin og byggðarframlagið 3,6 milljörðum króna.

Nýtt lagaákvæði heimilar styrki til byggingarverkefna á landsbyggðinni


Heimild til að úthluta sérstökum byggðarframlögum var veitt með breytingu á lögum um almennar íbúðir í desember síðastliðnum. Ákveðið var að ráðast í breytinguna í kjölfar landsbyggðarverkefnis HMS og nokkurra sveitarfélaga á landsbyggðinni sem örvaði uppbyggingu á þeim svæðum sem það tók til.

Það er HMS sem metur þörf og ákvarðar fjárhæð byggðarframlagsins sem tekur m.a. mið af markaðsaðstæðum á hverjum stað.