Forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, tilkynnti í dag að það yrði útgöngubann sett á næstu þrjár vikurnar frá og með miðnætti.

Starfsfólki í vatnsveitum, orkuveitum, heilbrigðisgeiranum, slökkviliðsmönnum, stjórnsýslunni og kaupmönnum verður leyft að halda áfram vinnu sinni.

Öllum verslunarmiðstöðvum, verksmiðjum, skrifstofum, mörkuðum og bænahúsum verður lokað. Þá verða engar almenningssamgöngur næstu vikurnar.

Í yfirlýsingunni segir Modi þetta einu lausnina til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu kórónaveirunnar í Indlandi sem gæti kostað fjölmörg mannslíf.

Samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum í Indlandi hafa 519 manns greinst með kórónaveiruna og tíu manns látið lífið í þessu næst fjölmennasta ríki heims.

Fylki innan Indlands hafa skipað íbúum að gangast að útgöngubanni undanfarna daga en nú er búið að loka fyrir alþjóðlegt flug til landsins.