Boris John­son, for­sætis­ráð­herra Bret­lands, til­kynnti í kvöld að strangari sam­komu­tak­markanir tækju gildi vegna fjölgunar kórónu­veiru­smita strax á mið­nætti. Nýju reglurnar kveða á um að fólk þarf að halda sig heima nema brýna nauð­syn beri til annars.

Í frétt BBC kemur fram að skólum á grunn- og mennta­skóla­stigi verður lokað þar til um miðjan febrúar­mánuð. Mun kennsla fara al­farið fram á netinu. John­son hvatti lands­menn til að fylgja nýju reglunum, en kórónu­veiru­til­fellum hefur fjölgað mjög á Eng­landi að undan­förnu og inn­lögunum á sjúkra­hús vegna veirunnar.

Bólu­setningar gegn veirunni eru hafnar þar eins og annars staðar og sagði John­son að stefnt væri að því að ljúka því að bólu­setja þá sem eru í fjórum efstu for­gangs­hópunum fyrir miðjan febrúar­mánuð.

Í á­varpi sínu frá Downing-stræti sagði John­son að lands­menn þyrftu að búa sig undir erfiðustu vikurnar í far­aldrinum hingað til. Hann bætti þó við að loka­kaflinn væri hafinn.

Í frétt BBC kemur fram að rúm­lega fimm­tíu þúsund smit hefðu greinst síðasta sólar­hring á Bret­landi, en það er sjöundi sólar­hringurinn í röð þar sem smit eru yfir 50 þúsund.