Útgjöld hins opinbera til menningarmála námu tveimur og hálfu prósenti af heildarútgjöldum árið 2018 og var hlutur Íslands til málaflokksins sá þriðji hæsti í Evrópu samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

Einungis Ungverjaland og Lettland vörðu stærri hlut til menningar sama ár, Ungverjar 2,7 prósentum og Lettar 2,8 prósentum.

Ef litið er til síðustu tíu ára má sjá að hlutdeild til menningar hefur verið svipuð á Íslandi síðasta áratuginn en hæst var hún árið 2013, eða 2,6 prósent og lægst árið á undan, 2,2 prósent. Á verðlagi ársins 2018 voru útgjöld til menningarmála rúmir 29 milljarðar, en lægst fór upphæðin niður í rúma 25 milljarða árið 2013.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir tölurnar endurspegla þá miklu áherslu sem lögð sé á menningu á Íslandi. „Við leggjum mikla áherslu á menningu hér á landi og munum halda áfram á þeirri leið, vegna þess að menningin skiptir Íslendinga miklu máli. Það sjáum við meðal annars í aðsókn að menningarviðburðum.“

Þá segir hún tölurnar og stöðu Íslands miðað við önnur lönd sýna mikilvægi menningar á Íslandi. Sé litið til hinna Norðurlandanna megi sjá að hluti opinberra útgjalda til menningar sé undir meðallagi í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Hlutur til menningar í Finnlandi er lægstur á Norðurlöndum, einungis tæpt eitt prósent.

Kórónaveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á bæði menningu og listir hér á landi og í skýrslu um áhrif COVID-19 á íslenskan tónlistariðnað, sem unnin var af Félagi íslenskra hljómlistarmanna, Félagi hljómplötuframleiðenda, Samtökum flytjenda og hljómplötuframleiðenda, STEF, Tónlistarborginni Reykjavík og Útflutningsstofu íslenskrar tónlistar, kemur fram að áhrifin hafi verið mest fyrir það tónlistarfólk sem reiði sig alfarið á tónlistina sem fyrirvinnu.

Áhrifin sjáist til að mynda í óafturkræfum kostnaði fyrir tónlistarfólk, offramboði og mikilli samkeppni, af bókunum og lægri launum. Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 var gert ráð fyrir 750 milljónum króna til að bregðast við þeim áhrifum sem faraldurinn hefur á listir, menningu, íþróttir og æskulýðsmál. Og segir Lilja að einnig sé uppi umræða um sérstakar aðgerðir varðandi tónlistarfólk.

„Við erum í samstarfi við lykilaðila í tónlistargeiranum að skoða sérstakar aðgerðir varðandi tónlistarfólk,“ segir Lilja og bætir við að miklu máli skipti að menningartengd starfsemi geti hafist sem fyrst að nýju.

„Það sást til að mynda um verslunarmannahelgina að þetta er mikil skellur fyrir stóran hóp fólks sem vinnur að tónlist,“ segir hún.

Þá segir Lilja að mikilvægast sé þó að ná stjórn á veirunni.

„Það er númer eitt, tvö og þrjú, því að við vitum að þetta er ekki eins og venjuleg inflúensa. Fólk veikist mismikið og við höfum ekki séð slíkan faraldur í áratugi. Til þess að samfélagið okkar blómstri þurfum við að ná stjórn á honum.“

Lilja Alfreðsdóttir, Mennta- og menningarmálaráðherra.