Hraðfrystihúsið Gunnvör sem gerir út frystitogarann Júlíus Geirmundsson hafnaði ítrekuðum beiðnum sóttvarnaryfirvalda um að skipinu yrðu siglt í höfn.

Síðar kom í ljós að stærstur hluti áhafnarinnar hafi veikst af kórónaveirunni.

Þetta segir í yfirlýsingu frá Sjómannasambandi Íslands. Samkvæmt upplýsingum frá umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum hafi verið óskað eftir því við útgerðina í byrjun veiðiferðarinnar að skipið kæmi í land vegna veikinda skipverja. Beiðnin hafi síðan verið ítrekuð þegar leið á veiðiferðina og fleiri veiktust.

Þá segir að útgerðin hafi hafnað þessum beiðnum sóttvarnalæknisins.

Fordæma aðgerðirnar

Stjórn Sjómannasambands Íslands segist líta viðbrögð útgerðarinnar alvarlegum augum og segir þau ekki í samræmi við tilmæli sem gefin hafi verið út í upphafi faraldursins um það hvernig útgerðir ættu að bregðast við þegar veikindi kæmu upp um borð.

„Útgerðin virðist hafa hunsað þessi tilmæli með öllu og hélt skipinu til veiða þrátt fyrir að skipverjar veiktust hver af öðrum. Í þessu tilviki virðist útgerð einungis hafa hugsað um fjárhagslegan ávinning útgerðarinnar frekar en heilsu og velferð áhafnar sinnar.“

Þá segist sambandið fordæma „þá lítilsvirðingu sem útgerðin sýndi áhöfn skipsins með því að halda áfram veiðum þrátt fyrir mikil veikindi um borð.“