Þrátt fyrir að Hafrannsóknastofnun hafi mælt með því að engar loðnuveiðar verði leyfðar á yfirstandandi fiskveiðiári eru útgerðarmenn sannfærðir um að loðnan muni finnast í næsta leiðangri.

Hafrannsóknastofnun tilkynnti á föstudag að niðurstöður rannsóknarleiðangurs, sem stóð yfir frá 7. september til 5. október, gefi ekki tilefni til að mæla með loðnuveiðum.

Loðnubrestur hefur orðið síðustu tvær vertíðir, en útflutningsverðmæti afurðarinnar á hverju ári nemur allt að 30 milljörðum króna. Útgerðarmenn segja að mælingar Hafrannsóknastofnunar á ungloðnustofninum gefi tilefni til bjartsýni, þrátt fyrir að ekki hafi verið mælt með úthlutun aflamarks að þessu sinni.

„Fregnir af andláti loðnustofnsins eru stórlega ýktar,“ segir Gunnþór Ingvarsson, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, sem á tæplega 19 prósent af aflamarki loðnu. Gunnþór bendir á ungloðnumæling Hafró hafi verið sú næstbesta í undanfarin 30 ár.

„Við höfum því þá vísbendingu um að loðnustofninn sé sannarlega sterkur, hún er þarna og næsta verkefni er að staðfesta það í samstarfi við vísindamennina. Ég er bjartsýnn á að vertíðin verði að veruleika,“ segir hann, en stofnmæling ungloðnu Hafró hljóðaði upp á 746 þúsund tonn. Gunnþór bendir jafnframt á að ungloðnumælingin síðasta haust hafi bent til þess að aflamarks­úthlutun fyrir veiðistofn þessa árs hefði átt að verða um 170 þúsund tonn.

Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja, tekur í svipaðan streng. Hann bendir á að sökum veðurfars á miðunum og mikillar útbreiðslu hafíss hafi ekki verið mögulegt að kanna allt svæðið sem til stóð í rannsóknarferð Árna Friðrikssonar í september: „Það er full ástæða til að gera sér góðar vonir um að janúarmælingin verði betri, í ljósi þess að mikið af hafís hindraði rannsóknirnar í september. Þar að auki var veður slæmt,“ en næsta loðnurannsóknarferð Hafró er fyrirhuguð 15. janúar næstkomandi.

Ísfélagið á um 20 prósent af aflamarki loðnu. Stefán bendir jafnframt á að ekki sé endilega hyggilegt að flýta næsta loðnuleiðangri Hafrannsóknastofnunar, þar sem best sé að finna loðnuna þegar hún hefur göngu í janúar.

Sigurgeir Brynjar Kristleifsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir að ekki séu öll kurl loðnuleitarinnar komin til grafar enn. Ekki sé ástæða til að örvænta enn sem komið er: „Ungloðnan var einnig sterk í fyrra þannig að ég á ekki von á öðru en að hún eigi eftir að skila sér í janúarmælingunni. Það jákvæða er auðvitað að við erum að sjá þessa stóru árganga koma aftur inn, um það verður ekki villst,“ segir hann og bætir við: „Það var mikill ís á svæðinu þar sem þeir bjuggust við að finna loðnuna. Loðnan er þarna og við munum finna hana.“