Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, segir því hafa verið ranglega haldið fram að ítrekað hafi verið óskað eftir því við RÚV að fyrirkomulagi á gamlársdag yrði breytt og ávarp forsætisráðherra tekið upp á öðrum tíma. Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi Fréttablaðsins, segist ítrekað hafa haft samband við Ríkisútvarpið og farið þess á leit að upptökum yrði hliðrað til svo forsætisráðherra komist í hina árlegu Kryddsíld. 

Mætir hálftíma of seint í þáttinn

Forsætisráðherra mætir að jafnaði rúmlega hálftíma of seint í beina útsendingu Kryddsíldarinnar, þar sem árið er gert upp með forystumönnum stjórnmálaflokkanna, vegna þess að á sama tíma er ávarp forsætisráðherra tekið upp í Efstaleiti. Í leiðara blaðsins í dag, sem Ólöf Skaftadóttir annar ritstjóra Fréttablaðsins ritaði, gagnrýnir hún þetta fyrirkomulag og segir óskiljanlegt af hverju þetta tvennt þarf að skarast. 

„Þrátt fyrir ítrekaðar umleitanir af hálfu einkamiðilsins sér Ríkisútvarpið sér ekki fært að taka upp ávarpið, sem ekki er sýnt í beinni útsendingu, á neinum öðrum tíma en þeim tveimur klukkustundum sem Kryddsíldin er í loftinu.“

Segir engar formlegar beiðnir borist

Í orðsendingu frá Skarphéðni, sem send var á Fréttablaðið fyrir stuttu, kemur fram að upptaka á áramótaávarpi forsætisráðherra hafi um árabil verið með sambærilegum hætti. Sú hefð hafi fyrst og fremst ráðist af óskum og dagskrá ráðherra og því hefði ávarpið ætíð verið tekið upp í kjölfar ríkisráðsfundar sem haldinn er að morgni gamlársdags.

„Í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag og í leiðara Fréttablaðsins í dag var því ranglega haldið fram að ítrekað hefði verið óskað eftir því við RÚV að þessu fyrirkomulagi yrði breytt og ávarp forsætisráðherra væri tekið upp á öðrum tíma,“ segir Skarphéðinn. Þá segir hann að engar formlegar beiðnir eða fyrirspurnir, hvorki formlegar né óformlegar, hafi borist RÚV, að minnsta kosti síðustu ár.

„Sjálfsagt mál hefði verið að verða við þeirri beiðni að því gefnu að slíkar breytingar féllu að dagskrá ráðherra og að mögulegt væri eftir sem áður að ljúka vinnslu ávarpsins í tæka tíð fyrir birtingu ávarpsins að kvöldi gamlársdags,“ segir hann.

Leiðari blaðsins stendur

Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi Fréttablaðsins, hafnar, sem fyrr segir, þessum fullyrðingum Skarphéðins og segist sjálf hafa ítrekað hringt í Ríkisútvarpið og farið þess á leit að upptökunum yrði hliðrað til svo forsætisráðherra komist í hina árlegu Kryddsíld. 

„Dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins stígur fram og segir ekkert hæft í þeim orðum leiðarahöfundar Fréttablaðsins í dag, að forsvarsmenn fréttastofu Stöðvar 2, sem undirrituð rak og stýrði á árunum 2014 til 2018, hafi nokkru sinni leitað til stofnunarinnar í þeim tilgangi að hliðra til upptökum á áramótaávarpi forsætisráðherra,“ segir Kristín.

„Orðsendingin frá dagskrárstjóranum hér að neðan dæmir sig sjálf og er ekki sannleikanum samkvæmt. Það er hryggilegt að forsvarsmönnum sjálfs Ríkisútvarpsins finnist svona framkoma boðleg. Leiðari blaðsins stendur.“

Frá Skarphéðni Guðmundssyni, dagskrárstjóra RÚV

Staðreyndir vegna upptöku á áramótaávarpi forsætisráðherra

Um árabil hefur upptaka á áramótaávarpi forsætisráðherra verið með sambærilegum hætti. Hefðin sem skapaðist réðst fyrst og fremst af óskum og dagskrá ráðherra og því hefur ávarpið ætíð verið tekið upp strax í kjölfar ríkisráðsfundar sem haldinn er að morgni gamlársdags.

Í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag og í leiðara Fréttablaðsins í dag var því ranglega haldið fram að ítrekað hefði verið óskað eftir því við RÚV að þessu fyrirkomulagi yrði breytt og ávarp forsætisráðherra væri tekið upp á öðrum tíma. 

Þetta er ekki rétt. Engar beiðnir eða fyrirspurnir, hvorki formlegar né óformlegar, hafa borist RÚV um breytingar á þessu fyrirkomulagi, a.m.k. ekki síðustu ár.  

Sjálfsagt mál hefði verið að verða við þeirri beiðni að því gefnu að slíkar breytingar féllu að dagskrá ráðherra og að mögulegt væri eftir sem áður að ljúka vinnslu ávarpsins í tæka tíð fyrir birtingu ávarpsins að kvöldi gamlársdags. Það hefur verið stefna RÚV að eiga í góðu og uppbyggilegu samstarfi við aðra fjölmiðla eftir því sem við á hverju sinni og kostur gefst til. Eftir því hefur verið unnið og verður það áfram gert.

Frá Kristínu Þorsteinsdóttur, útgefanda Fréttablaðsins

Að kunna ekki að skammast sín – athugasemd útgefanda Fréttablaðsins og frettabladid.is

Dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins stígur fram og segir ekkert hæft í þeim orðum leiðarahöfundar Fréttablaðsins í dag, að forsvarsmenn fréttastofu Stöðvar 2, sem undirrituð rak og stýrði á árunum 2014 til 2018, hafi nokkru sinni leitað til stofnunarinnar í þeim tilgangi að hliðra til upptökum á áramótaávarpi forsætisráðherra. Þessum fullyrðingum dagskrárstjórans hafnar undirrituð alfarið, enda var það hún sjálf sem hringdi ítrekað í Ríkisútvarpið,  og fór þess á leit að upptökunum yrði hliðrað til svo forsætisráðherra gæti komist í hina árlegu Kryddsíld ásamt öðrum kollegum sínum úr stjórnmálunum.

Orðsendingin frá dagskrárstjóranum hér að neðan dæmir sig sjálf og er ekki sannleikanum samkvæmt. Það er hryggilegt að forsvarsmönnum sjálfs Ríkisútvarpsins finnist svona framkoma boðleg. Leiðari blaðsins stendur.