Asíumarkaður er allsráðandi í viðskiptum með loðnuafurðir í ár. Fyrstu 10 mánuði ársins hafa verið fluttar út loðnuafurðir fyrir rúma 14 milljarða króna, sem er met. Það er um 63 prósent af heildarverðmæti útfluttra loðnuafurða á árinu. Skýringin á þessu mikla verðmæti aflans er að stærstur hluti hans er nýttur til manneldis. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.

Stórfellda aukningu á verðmætum útfluttra sjávarafurða til Asíu milli ára má alfarið rekja til loðnunnar. Ef hún er undanskilin í útflutningtölum til Asíu mælist samdráttur upp á tæp 8 prósent milli ára í krónum talið. Ástæðan fyrir því er að stærstum hluta sú að mikill samdráttur hefur verið í makrílveiðum. Asíumarkaður er langstærsti markaðurinn fyrir grálúðu, en síðustu ár hefur um 90 prósent af grálúðu verið fluttu til Asíu miðað við verðmæti. Asía er einnig langstærsti markaður fyrir sæbjúgu en þar er Kína með yfirburðastöðu, segir í fréttatilkynningu frá SFS.