Farið er að bera á því að Íslendingar veigri sér við því að mæta á fjölmenna viðburði í kirkjum landsins eins og messur og útfarir. Til þess að tryggja að allir sem vilja fylgja hinum látna til grafar geti fylgst með, er farið að bjóða upp á útsendingar með hljóði og stundum einnig mynd og er þess getið þegar útfarir eru auglýstar.

Ein slík fer fram í Skálholtskirkju um helgina en í útfarartilkynningunni er fólki bent á að hægt verði að fylgjast með á sérstakri útvarpstíðni.

„Þessi tækni hefur verið lengi til staðar, einkum þegar búist er við mikilli kirkjusókn í smærri kirkjur. Út af útbreiðslu kórónaveirunnar er fólk þó skiljanlega farið að kjósa að halda sig fjarri fjölmenni. Á því verðum við að finna lausnir og þá er gott að búa að þessari tækni,“ segir Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti.

Útlit fyrir að' fermingartímabilið verði með breyttu sniði

Að öllu jöfnu væri mikill annatími að bresta á í kirkjum landsins því fermingartímabilið er handan við hornið. Allt útlit er fyrir að það verði með breyttu sniði. „Það er þegar farið að bera á því að fermingum sé frestað fram á sumar og jafnvel fram á haust. Ég veit til þess að farið er að bjóða upp á dagsetningar í ágúst, jafnvel september,“ segir Kristján.

Þær fermingar sem munu fara fram á réttum tíma verða þá að öllum líkindum með breyttu sniði. „Fermingarnar verða í sumum tilvikum fleiri yfir daginn og þar af leiðandi fámennari. Þá verður til dæmis altarisgöngunni sleppt,“ segir Kristján. Hann segist einnig hafa heyrt að margar fjölskyldur ætli að fresta fermingarveislunum til betri tíma þó að fermingin fari fram.

Að sögn Kristjáns hefur verið aðdáunarvert að sjá hvernig Íslendingar hafi aðlagað sig breyttum raunveruleika. „Það er erfitt að taka út þau samskipti að heilsast og faðmast á gleði- og sorgarstundum. Það er að mörgu leyti ótrúlegt að sjá hversu fljótt fólk hefur aðlagast þessu og greinilegt að almenningur í landinu er orðinn afar meðvitaður um að fara eftir tilmælum heilbrigðisyfirvalda. Það er hughreystandi að sjá,“ segir Kristján.