Stjórn Krabbameinsfélags Íslands segir í bókun vegna fyrirhugaðra breytinga á framkvæmd skimana krabbameins að þótt að margar hugmyndir sem lagðar hafi verið fram séu góðar, þá sé „veruleg vinna eftir við að fullgera og hrinda í framkvæmd þeim ákvörðunum sem væntanlega verða teknar á grundvelli tillagnanna.“ 

Þjónustusamningur Krabbameinsfélagsins við SÍ um framkvæmd skimana rennur út við árslok.

Fyrr í vikunni kynntu embætti landlæknis og skimunarráð tillögur um breytt fyrirkomulag skimana. Þar er meðal annars lagt til að skimanir fyrir krabbameinum verði að einhverju leyti færðar á heilsugæslustöðvar og verði hluti af almennri og opinberri heilbrigðisþjónustu. Þar er einnig að finna hugmyndir um breytta skipan á staðsetningu, stjórn og framkvæmd skimana fyrir krabbameinum og krabbameinsskrá. 

Sjá einnig: Skimað fyrir leg­háls­krabba­meini á heilsu­­gæslum

Í bókun Krabbameinsfélagsins er fjallað um að þjónustusamningur ríkisins renni út við árslok, eftir um tíu mánuði, og að félagið hafi áhyggjur af því að ekki náist að innleiða allar þær tillögur sem lagðar eru til áður en samningurinn rennur út.

„Ljóst má vera að alvarlega hætta er á að misbrestir geti orðið við yfirfærslu verkefnisins,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Þarf að vanda mjög til

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, segir í samtali við Fréttablaðið að það sé nauðsynlegt að útfæra tillögurnar betur, setja niður skýra tímalínu og kostnaðargreina allar aðgerðir.

„Staðan er sú að tillögurnar eru komnar fram og þetta er tillögur sem ráðherra hefur verið að bíða eftir. Við teljum að, burtséð frá innihaldi þeirra, endurskipulagning og flutningur þessarar þjónustu sé mjög stórt verkefni sem að þarf að vanda mjög til. Alveg burtséð frá því hvert það eða hvenær það fer,“ segir Halla.

Hún segir að í tillögunum sé meðal annar lagt til að sett verði á stofn stjórnstöð sem sé eins konarhryggjarstykki starfseminnar. Hún segir að skimunin sjálf sé eflaust einfaldasti hluti starfseminnar, en aðrir þættir séu flóknari, sem myndu falla þar undir, svo sem eftirfylgd, innköllun og eftirlit og uppgjör það er hvaða krabbamein greinast í skimun og utan skimunar og aðrir þættir.

„Í tillögunum kemur fram að það þurfi að finna heppilegan stað fyrir þessa stjórnstöð sem segir okkur að þessar hugmyndir eru langt frá því að vera fullmótaðar,“ segir Halla og bætir við:

„Það er ekkert sem segir að það megi ekki eða þurfi ekki að hugsa þessi mál upp á nýtt. Það bara þarf að ætla því tíma til ígrundunar. Það þarf að undirbúa alla aðila, þá sem mögulega taka við nýjum verkefnum. Því þetta er flókið. Staðan er svo aftur sú að það er ekki samningur um þjónustuna nema til næstu áramóta,“ segir Halla.

Þarf að tryggja þjónustu á meðan framtíðarfyrirkomulag er ákveðið

Hún segir að síðastliðið haust hafi þau lagt til við ráðuneytið að á meðan væri verið að fara yfir stöðuna og hvernig mætti breyta fyrirkomulagi yrði samið við Krabbameinsfélagið til þriggja ára, svo starfsemi og þjónustan væri tryggð fyrir fólk.

„Þannig að fólk gæti gengið að skimuninni, sem er ætlað að draga úr dauðsföllum af völdum krabbameina, vísri. En jafnframt gæfist þá tími til þess að hugsa og undirbúa breytingar, ef að það yrði niðurstaðan. Þannig væri hægt að koma þjónustunni í skjól en um leið að skapa rými til að vinna að breytingum. En það var ekki fallist á þetta,“ segir Halla.

Hún segir að frá 2013 hafi samningur félagsins við ríkið verið framlengdur sjö sinnum, lengst í fimmtán mánuði og styst í þrjá mánuði

„Það er rosalega vondur díll, að reka eitthvað í eitt ár fram í tímann. Það gerir það að verkum að starfsemin er að ákveðnu leyti alltaf í gíslingu,“ segir Halla

Halla tekur þó fram að þrátt fyrir að eitthvað vanti upp á tillögurnar þá sé margt að finna þarna sem þau hjá Krabbameinsfélaginu hafi viljað sjá innleitt fyrir löngu síðan, eins og að þjónustan sé gjaldfrjáls. Hún segir að á hinum Norðurlöndunum, utan Noregs, sé þjónustan gjaldfrjáls.

„Þeir hópar sem veikastir standa hafa ekki endilega efni á því að greiða fyrir skimun [innsk. blm. og eiga ekki endilega rétt á að fá endurgreitt frá stéttarfélagi]. Það geta verið yngstu konurnar sem eru ekki á vinnumarkaði og eru í námi og eitthvað slíkt,“ segir Halla.

Mikilvægt að þjónustan sé tryggð

Hún segir að félagið sé með tilraunaverkefni í gangi núna þar sem þeim konum sem boðaðar eru í skimun í fyrsta skipti fái ókeypis skimun. Hún segir að það sé auðvitað stuttur tími liðinn og að meiri reynslu vanti á verkefnið, en það séu skýrar vísbendingar um að það hafi áhrif og fleiri komi, vegna þess að ekki þurfi að greiða gjald.

„Þetta kostar félagið um fimmtán milljónir á þessu ári. Við erum að meta árangurinn og hann er ekki enn orðinn marktækur. Við spyrjum konur hvort þetta hafi áhrif og við erum með vísbendingar um að þetta hvetji þær til að koma, og jafnvel að þarna sé hópur sem segir að hann hefði ekki komið, hefði hann þurft að borga,“ segir Halla.

Halla segir að lokum það hér sé tíminn stærsta málið og ítrekar mikilvægt þess að þjónustan sé tryggð, sama hvaða leið verður farið.

„Tíminn er stóra málið í þessu. Að við vöndum okkur nægilega og að það sé ekki hrapað að einhverjum breytingum. Að rökstudd ástæða sé fyrir þeim og það sé klárt hverju þær eiga að skila og að þeir aðilar sem eigi að sinna þjónustunni séu tilbúnir og að það sé búið að tryggja að öll línan, alveg frá upphafi til enda sé heil og slitni hvergi á leiðinni,“ segir Halla að lokum.