„Nú þegar tíu áru eru liðin er rétti tíminn fyrir alla, bæði ráðamenn og aðra að horfa til baka og skoða hvernig við brugðumst við. Þá er ýmislegt sem kemur í ljós að ekki var hugsað út í. AUF, ungliðahreyfing norska verkamannaflokksins sem ráðist var gegn var að miklu leyti ein látin vinna úr eftirmálum þessa harmleiks innan sinna raða,“ segir Aud Lise.


„Nú í sumar hafa komið út þónokkrar bækur, sumar skrifaðar af eftirlifandi fórnarlömbum aðrar af sagnfræðingum. Gegnumgangandi er sú staðreynd að skotmark hryðjuverkamannsins var stjórnkerfið sem á þeim tíma var leitt af Jens Stoltenberg og Verkamannaflokknum.“

Aud Lise Norheim sendiherra Noregs á Íslandi segir samtalið sem nú á sér stað að tíu árum liðnum, nauðsynlegt. Fréttablaðið/Ernir

Aud Lise minnist orða Stoltenberg um að þjóðin myndi aldrei gleyma og aldrei leyfa hatrinu að sigra.

„Nokkrum dögum eftir árásina mætti fjöldi fólks fyrir utan Ráðhús Osló með rósir og ástin var allsráðandi. En smátt og smátt má segja að sú tilfinning hafi horfið. Tónninn breyttist og mátti jafnvel heyra ásakanir um að Verkamannaflokkurinn og sérlega ungliðahreyfingin væri að nota harmleikinn sér til pólítísks framdráttar, til að afla sér stuðnings.“

Rósum var dreift víða vikurnar eftir hryðjuverkin til minningar um fórnarlömbin og urðu einhvers konar tákn um ástina sem áhersla var lögð á að skildi sigra hatrið. Fréttablaðið/Getty

Einn sagnfræðingana benti í bók sinni á erfiða stöðu Jens Stoltenberg á þessum tíma.

„Hann var forsætisráðherra landsins en jafnframt formaður Verkamannaflokksins sem var skotmark árásarinnar. Hann stóð frammi fyrir því að þurfa að sameina þjóðina og átti því erfitt með að benda á að þetta væri árás á lýðræðislegt kerfi Noregs. Umræðan í dag snýst um það hvernig samtalið er, hvaða orðalag við notum og hvað er samþykkt í þeim efnum, en það hefur tekið tíu ár að komast þangað. Við þurfum að skoða rætur hatursins og hvernig við getum barist gegn öfgahyggju án ofbeldis.“

„Við þurfum að skoða rætur hatursins og hvernig við getum barist gegn öfgahyggju án ofbeldis.“

Vinir mínir áttu börn þarna


Aud Lise segir Stoltenberg hafi staðið sig vel í gríðarlega erfiðum aðstæðum.

„Sjálfur þekkti hann fjölmörg fórnarlömb og hafði stuttu áður heimsótt Útey, þar sem hann nánast ólst upp. Flestir Norðmenn þekktu einhvern sem árásin snerti beint. Börnin mín áttu vini þarna og vinir mínir áttu börn þarna svo þetta snerti okkur öll. Sú afstaða forsætisráðherra að leggja áherslu á ástina og að hatrið fengi ekki að sigra, var hárrétt á þessum tímapunkti.

En því miður breyttist eitthvað og okkur tókst ekki að framlengja þeirri hugsjón og hægra öfgafólk náði að yfirtaka umræðuna. Frá þeim heyrðist að fórnarlömb árásarinnar notuðu „Úteyjar spilið.“ Þetta heyrðist bæði frá frá háttsettum stjórnmálamönnum og í athugasemdaakerfum á samfélagsmiðlum.“

Syrgjendur áttu athvarf í dómkirkju Osló þar sem þeir komu saman dagana eftir hryðjuverkin. Fréttablaðið/Getty

Lise segir fólk ekki hafa verið undirbúið þeim viðsnúningi og ekki verið tilbúin í samtalið.

„Verkamannaflokkurinn vildi gæta þess að móðga engan í samtalinu í kjölfarið enda mikilvægt að halda því á lofti að Noregur hafi allur verið skotmarkið. Að þessu leyti var flokkurinn skilinn eftir einn með þennan vanda. Samtalinu var í raun snúið við og það var ungmennahreyfingin sem varð fyrir árásinni sem þurfti að gæta þess að móðga ekki þá sem ásökuðu þau um að nota árásina sér til pólítísks framdráttar. Og þetta er að koma upp á yfirborðið núna.“

Lise segir þennan föstudagseftirmiðdag greiptan í minnið. „Ég var á leið um borð í ferju þegar ég heyri háværa sprengju. Ég hef aðallega verið í verkefnum í Mið-austurlöndum svo ég þekki sprengjudyn þegar ég heyri hann. Það var stormur úti en ég vissi vel að þetta var ekki þruma.“

„Ég var á leið um borð í ferju þegar ég heyri háværa sprengju. Ég hef aðallega verið í verkefnum í Mið-austurlöndum svo ég þekki sprengjudyn þegar ég heyri hann."

Lise segist fljótlega hafa heyrt af sprenginunni við stjórnarráðsbyggingarnar og í framhaldi heyrt af árásinni í Útey og kemst við þegar hún rifjar upp atburði dagsins.

„Þær hryðjuverkaárásir sem orðið hafa í Noregi hafa allar verið framkvæmdar af hægri öfgamönnum og það er mikilvægt að horfa til þess og taka endurteknar árásir á borgaraleg réttindi og lýðræði alvarlega.“

Mikilvægasta samtalið

Lise segir árásirnar hafa breytt þankagangi Norðmanna.

„Við vitum að við erum ekki lítið eyland í norðri þar sem ekkert svona getur gerst. En það er eins og við höfum þurft þessi tíu ár til að skoða hvernig við tókumst á við þetta og hvað hefði mátt betur fara. Við þurftum auðvitað að skoða alla viðbragðsferla en einnig hvað má gera til að koma í veg fyrir að slík hugmyndafræði grasseri. Nú er það mikilvægasta samtalið.“

„Við þurftum auðvitað að skoða alla viðbragðsferla en einnig hvað má gera til að koma í veg fyrir að slík hugmyndafræði grasseri. Nú er það mikilvægasta samtalið.“

Eftirlifandi fórnarlömb eru enn að kljást við heilsufarsleg vandamál tengd árásinni enda voru þetta börn. Við höfum lært að það tekur tíma að vinna úr þessu og við þurfum kerfi sem heldur utan um þetta fólk til lengri tíma litið, það dugir ekki að bjóða þessu fólki fría sálfræðiaðstoð í eitt ár eða svo.“


Lesa upp hvert nafn árlega


Við stjórnarráðsbyggingarnar í Osló verður athöfn á fimmtudaginn þar sem ráðamenn koma saman ásamt eftirlifandi fórnarlömbum. Lesin verða upp nöfn hinna látnu, fyrst þeirra átta sem létust við stjórnarráðsbyggingarnar og svo þeim 69 sem myrtir voru á Útey. Eins verður athöfn í Dómkirkju Osló sem lék stórt hlutverk á þessum erfiðu tímum þegar fólk kom saman þar. Athöfn verður jafnframt í Útey þar sem fórnarlömb, aðstandendur og björgunaraðilar, margir hverjir nágrannar eyjunnar, koma saman.

Minnisvarði hefur verið reistur á Útey með nöfnum allra þeirra 69 sem létu lífið í hryðjuverkunum árið 2011. Fréttablaðið/Getty

Aud Lise segir undanfarinn áratug hafa skapast sú hefð að lesa upp nöfn allra þeirra sem létust í árásunum, bæði í Osló og á Útey og sé alltaf um magnaða stund að ræða.

Hér í Reykjavík er minnislundur í Vatnsmýrinni þar sem eru þrír bekkir sem á eru letruð orðin Aldrei gleyma á íslensku, norsku og ensku. Þar er ætlunin að efna til samverustundar klukkan hálf fimm á fimmtudaginn. Jafnframt verður kvikmyndin 22.júlí sem fjallar um hryðjuverkaárásina, sýnd í Bíó Paradís sama kvöld og á Rúv á föstudagskvöldið.

„Þetta er mynd sem maður verður að sjá með öðrum enda erfið áhorfs.“