Danir vinna nú að því að gefa út sérstakt vegabréf fyrir þá einstaklinga sem hafa verið bólusettir gegn COVID-19.
Vegabréfinu verður hægt að framvísa við komu til annarra landa, en þeir sem hafa verið bólusettir gegn veirunni sleppa þá við sóttkví, skimun eða aðrar ráðstafanir á landamærum.
Dönsk yfirvöld ákváðu að ráðast strax í málið þar sem líklega verður það krafa víða um heim að hafa vottorð um bólusetningu við komu til annarra landa. Danska ríkisútvarpið greinir frá.
Vegabréfið á að einfalda mjög fyrir ferðalögum og koma flug- og afþreyingariðnaði í landinu aftur af stað með meiri hraða en annars væri hægt.
Samskonar vottorð í bígerð hér á landi
Til stendur að útbúa samskonar vottorð hérlendis en embætti landlæknis mun halda utan um útgáfu bólusetningarvottorða og fyrirkomulag þess.
Kjartan Hreinn Njálsson, upplýsingafulltrúi landlæknis segir að líklegast verði vottorðin afgreidd með svipuðum hætti og vottorð vegna mótefnis.
„Þetta verður að öllum líkindum sett upp með svipuðum hætti og mótefnavottorðin sem hægt er að nálgast í gegnum heilsuveru.is. Þetta er ekki komið til framkvæmda hjá okkur en það stendur til að gera þetta. Við reynum að gera þetta eins fljótt og auðið er en það hafa aðrir hlutir verið í forgangi," segir Kjartan.

Unnið að ýmsum lausnum
Bólusetningarvegabréf eða vottorð er til umræðu hjá Evrópusambandinu og Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni en unnið er að því að útbúa alþjóðlega lausn. Það verður svo undir hverju landið komið hvernig hægt verði að nota vegabréfið.
Svissneskt fyrirtæki hefur einnig unnið að því að hanna nýtt app sem kallast CommonPass, í samstarfi við World Economic Forum. Með appinu verður hægt að sýna fram á mótefni eða bólusetningu gegn COVID-19 með sérstökum QR kóða sem hægt verður að skanna á flugvöllum fyrir brottför.

Nokkur af stærstu flugfélögum heims, á borð við United, Lufthansa, Swiss International Airlines og Virgin Atlantic hafa nú þegar tekið app CommonPass til notkunar og er það í þróunarferli.
Alþjóðasamtök flugvalla (Airports Council International) sem er fulltrúi um 2.000 flugvalla um allan heim er einnig með Common Pass í reynsluferli.
Jákvætt framtak
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir í samtali við Fréttablaðið að þetta séu jákvæðar fréttir en breyti ekki miklu í stöðu ferðaþjónustunnar hér á landi eins og er.
„Það er skynsamlegt og jákvætt að það sé verið að hugsa þetta lengra en bara sem bólusetningarvottorð, að það verði hægt að auðvelda fólki fyrir þegar það fer að ferðast aftur. Í heildarsamhenginu breytir þetta ekki miklu í stöðunni hjá ferðaþjónustunni akkúrat núna. Það er fyrst og fremst tvennt sem við þurfum að sjá hvernig þróast. Í fyrsta lagi hvað stjórnvöld ætla að segja um framtíðarfyrirkomulag sóttvarna á landamærum núna 15. janúar, það er lang mikilvægast fyrir okkur á þessum tímapunkti."

Hann segir að einnig skipti máli hvernig bólusetningar gangi hér á landi og erlendis. „Því fleiri sem eru bólusettir hér því auðveldara er fyrir okkur að taka á móti ferðamönnum og slaka á sóttvarnakröfum. Það að eitthvað eins og þetta vegabréf og app sé tekið til notkunar auðveldar vonandi þeim sem hafa verið bólusettir að sýna fram á að þeir séu heilbrigðir og fólk geti komast auðveldlega á milli landa," segir Jóhannes Þór að lokum.