Danir vinna nú að því að gefa út sér­stakt vega­bréf fyrir þá ein­stak­linga sem hafa verið bólu­settir gegn CO­VID-19.
Vega­bréfinu verður hægt að fram­vísa við komu til annarra landa, en þeir sem hafa verið bólu­settir gegn veirunni sleppa þá við sótt­kví, skimun eða aðrar ráð­stafanir á landa­mærum.

Dönsk yfir­völd á­kváðu að ráðast strax í málið þar sem lík­lega verður það krafa víða um heim að hafa vott­orð um bólu­setningu við komu til annarra landa. Danska ríkis­út­varpið greinir frá.
Vega­bréfið á að ein­falda mjög fyrir ferða­lögum og koma flug- og af­þreyingar­iðnaði í landinu aftur af stað með meiri hraða en annars væri hægt.


Sams­konar vott­orð í bí­gerð hér á landi


Til stendur að út­búa sams­konar vott­orð hér­lendis en em­bætti land­læknis mun halda utan um út­gáfu bólu­setningar­vott­orða og fyrir­komu­lag þess.
Kjartan Hreinn Njáls­son, upp­lýsinga­full­trúi land­læknis segir að lík­legast verði vott­orðin af­greidd með svipuðum hætti og vott­orð vegna mót­efnis.
„Þetta verður að öllum líkindum sett upp með svipuðum hætti og mót­efna­vott­orðin sem hægt er að nálgast í gegnum heilsu­veru.is. Þetta er ekki komið til fram­kvæmda hjá okkur en það stendur til að gera þetta. Við reynum að gera þetta eins fljótt og auðið er en það hafa aðrir hlutir verið í for­gangi," segir Kjartan.

Kjartann Hreinn Njálsson, upplýsingafulltrúi embætti landlæknis.
Ernir Eyjólfsson

Unnið að ýmsum lausnum

Bólusetningarvegabréf eða vottorð er til umræðu hjá Evrópusambandinu og Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni en unnið er að því að útbúa alþjóðlega lausn. Það verður svo undir hverju landið komið hvernig hægt verði að nota vegabréfið.

Svissneskt fyrirtæki hefur einnig unnið að því að hanna nýtt app sem kallast CommonPass, í samstarfi við World Economic Forum. Með appinu verður hægt að sýna fram á mótefni eða bólusetningu gegn COVID-19 með sérstökum QR kóða sem hægt verður að skanna á flugvöllum fyrir brottför.

Appið verður einfalt og þæginlegt í notkun en hægt verður að nálgast allar upplýsingar rafrænt.
Fréttablaðið/Skjáskot

Nokkur af stærstu flug­fé­lögum heims, á borð við United, Luft­hansa, Swiss International Air­lines og Virgin At­lantic hafa nú þegar tekið app Common­Pass til notkunar og er það í þróunar­ferli.
Al­þjóða­sam­tök flug­valla (Air­ports Council International) sem er full­trúi um 2.000 flug­valla um allan heim er einnig með Common Pass í reynslu­ferli.

Jákvætt framtak

Jóhannes Þór Skúla­son, fram­­kvæmda­­stjóri Sam­­taka ferða­þjón­ust­unn­ar, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að þetta séu já­kvæðar fréttir en breyti ekki miklu í stöðu ferða­þjónustunnar hér á landi eins og er.
„Það er skyn­sam­legt og já­kvætt að það sé verið að hugsa þetta lengra en bara sem bólu­setningar­vott­orð, að það verði hægt að auð­velda fólki fyrir þegar það fer að ferðast aftur. Í heildar­sam­henginu breytir þetta ekki miklu í stöðunni hjá ferða­þjónustunni akkúrat núna. Það er fyrst og fremst tvennt sem við þurfum að sjá hvernig þróast. Í fyrsta lagi hvað stjórn­völd ætla að segja um fram­tíðar­fyrir­komu­lag sótt­varna á landa­mærum núna 15. janúar, það er lang mikil­vægast fyrir okkur á þessum tíma­punkti."

Jóhannes Þór Skúlason, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar segir fréttir af slíkum vegabréfum jákvæðar en að enn halli undan fæti hjá ferðaþjónustunni á landinu á meðan krafa er um fimm daga sóttkví fyrir alla sem koma til landsins.

Hann segir að einnig skipti máli hvernig bólu­setningar gangi hér á landi og er­lendis. „Því fleiri sem eru bólu­settir hér því auð­veldara er fyrir okkur að taka á móti ferða­mönnum og slaka á sótt­varna­kröfum. Það að eitt­hvað eins og þetta vega­bréf og app sé tekið til notkunar auð­veldar vonandi þeim sem hafa verið bólu­settir að sýna fram á að þeir séu heil­brigðir og fólk geti komast auð­veld­lega á milli landa," segir Jóhannes Þór að lokum.