„Þetta er auðvitað nýr veruleiki fyrir okkur en þetta skapar líka ný tækifæri,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn Almannavarna, á upplýsingafundi í dag. Hann hafði orð á því að samráðsfundur dagsins hafi gengið vel og að hugmyndir yrðu nýtta hjá stjórnvöldum í framtíðinni.

„Menn eru að endurskoða ýmislegt en það eru líka hættumerki á lofti í ýmsu sem þarf að vinna vel að,“ benti Víðir á. Þar nefndi hann að huga þyrfti vel að viðkvæmum hópum, menntakerfinu og menningu og listum.

Nákvæmari viðvaranir

Víðir sagði einnig að fram undan væri ákveðin vegferð sem myndi tryggja fyrirsjáanleika fyrir skipuleggjendur viðburða, skólayfirvöld og atvinnulífið.

„Við erum við að skoða ýmsar leiðir í því eins og til dæmis það að útbúa einhvers konar stigskiptingu ástands á hverjum tíma.“ Stiginn yrðu nákvæmari en almenn almannavarnastig og minntu frekar á veðurviðvaranir.

„Innan hvers stigs væri hægt að nota litakóða svipað og við þekkjum með veðrið þar sem hafa verið gefnar út viðvaranir jafnvel bundnar við ákveðna landshluta eftir ástandi á hverjum tíma.“ Þá gæti fólk gripið til eigin aðgerða án þess að öllum reglum væri breytt.

Sóttvarnir og frelsi haldist í hendur

„Þetta gengur náttúrlega dálítið út á það að við þurfum að skapa aðstæður í samfélaginu þar sem sóttvarnarkröfurnar og það sem við viljum gera til að verjast veirunni mæta síðan þeirri ósk okkar allra að búa í opnu og frjálsu samfélagi þar sem við getum gert það sem okkur langar til.“

Lykilorð almannavarna verður áfram traust, virðing og ábyrgð. „Traust hvert til annars virðing á mismunandi skoðunum og ábyrgð á eigin gjörðum.“