Þetta kemur fram í yfirliti Embættis landlæknis frá í gær. Þar segir að undanfarinn mánuð hafi mörg Evrópulönd tilkynnt um aukningu á Covid sjúkrahúsinnlögnum, auk aukningar á tíðni smita. Dánartíðni er lág þó að í þriðjungi landanna hafi dauðsföllum íbúa hjúkrunarheimila fjölgað.
Þótt neyðarnefnd Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar telji Covid 19 enn heilsuógn á heimsvísu hefur þátttaka í seinni örvunarbólusetningu verið frekar dræm í mörgum Evrópulöndum. Bólusetningastaða hér er sögð með ágætum en allir 60 ára og eldri, auk fólks í áhættuhópum, séu þó hvattir til að fara í örvunarbólusetningu fyrir veturinn.
Hérlendis hefur fjöldi greindra tilfella haldist stöðugur frá í sumar og nýgengi farið hægt lækkandi. Hlutfall jákvæðra sýna hefur verið um 30 prósent sem er hátt og bendir til að smit sé útbreitt í samfélaginu og ekki allir fari í opinber próf.
Alls 213 hafa látist vegna Covid-19 frá því að faraldurinn nam hér land til og með júlí.