Riða á bæjunum Grænumýri og Syðri-Hofdölum í Blönduhlíð, og Hofi í Hjaltadal hefur verið staðfest. Sauðféð sem riðan greindist í kom frá Stóru-Ökrum þar sem riða var staðfest í síðustu viku. Frekari rannsóknir standa nú yfir.

Staðan er alvarleg og þurfa bændurnir líklega að lóga allt að þrjú þúsund fjár. Engin lækning er til við veikinni og þarf því að fella og farga öllum dýrum.

Matvælastofnun hefur tekið tæp tvö þúsund sýni úr sauðfé innan Tröllaskagahólfs frá því að grunur um riðu kom upp, ásamt því að kortleggja flutninga sauðfjár til og frá bæjum innan hólfsins. Upplýst verður um frekari niðurstöður um leið og þær liggja fyrir.

Eins og fyrr segir greindist riða á bænum Stóru-Ökrum í Skagafirði í síðustu viku. Grunur um riðu á bænum kom upp í vikunni þar á undan og setti Mat­væla­stofnun í kjöl­farið bann á allan flutning líf­fjár innan Trölla­skaga­hólfs til bráða­birgða þar til greining væri stað­fest. Allur flutningur fjár innan hólfsins er bannaður.

MAST tekur fram að engar vísbendingar eru um að fólki stafi hætta af snertingu við riðusmitað fé né neyslu afurða þess, svo sem kjöts, innmatar og mjólkur. Hvorki neytendur né fólk sem starfar á sauðfjárbúum eða í sláturhúsum er í hættu vegna riðuveiki í sauðfé.