Ríkið innheimtir allt að 58,8 prósentum hærra útboðsgjald af erlendum búvörum nú í ágúst miðað við apríl á þessu ári. Félag atvinnurekenda hefur sent matvælaráðuneytinu erindi þar sem kallað er eftir breytingum á kerfinu.

„Ef stjórnvöld vilja efla samkeppni og lækka vöruverð á tímum þar sem verðbólga er sú hæsta síðan á hrunárunum þá hlýtur ráðherra að bregðast við og gera breytingar á kerfinu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri félagsins, sem einnig hefur sent Samkeppniseftirlitinu erindi vegna málsins. Það er nú í ferli innan stofnunarinnar.

Ríkið innheimtir í ágúst 665 milljónir í útboðsgjald fyrir tollkvóta af búvörum frá Evrópusambandinu. Flestir vöruflokkar hafa hækkað og það ríflega.

Sem dæmi var gjaldið fyrir innflutning á nautakjöti 347 krónur á kílóið í apríl en nú er það 551 króna. Hækkun upp á 58,8 prósent. Gjald vegna svínakjöts hefur hækkað um 55,8 prósent og lífrænt alifuglakjöt 49,6 prósent.

Pylsur hafa lækkað

Eini vöruflokkurinn sem hefur lækkað er pylsur, en hækkunin á öðrum flokkum hefur verið um 5 til 19,1 prósent. Það er alifuglakjöti, ostum, þurrkuðum og reyktum skinkum og annarri eldaðri kjötvöru.

„Innlendu framleiðendurnir eru að bjóða mjög hátt í kvóta. Sérstaklega í svína- og kjúklingakjöti,“ segir Ólafur. „Þeir koma í veg fyrir innflutta samkeppni við eigin vörur og stýra þannig verðinu. Það getur aldrei verið gott fyrir neytendur.“

Í útboðinu í ágúst gerðist það í fyrsta skipti að allur tollkvóti svínakjöts fór til innlendra framleiðenda. Það er Mata og Stjörnugríss.

„Þetta þýðir að sú mjög takmarkaða samkeppni sem innlend búvöruframleiðsla hefur frá innflutningi verður dýrari en ella og þjónar ekki þeim tilgangi sem lagt var upp með þegar samningurinn við Evrópusambandið var gerður. Það er að samkeppni myndi aukast og vöruverð lækka,“ segir Ólafur.

Útboðsgjald hafi hækkað

Félag atvinnurekenda bendir á að útboðsgjaldið hafi hækkað mikið undanfarin þrjú ár, en flakkað hafi verið milli tveggja aðferða við útboðið. Eldri aðferð þar sem hæstbjóðendur fengu úthlutað og jafnvægisútboð þar sem allir borga sama verð. Eldri aðferðin var tekin aftur upp í Covid sem aðferð til að verja innlenda framleiðslu.

„Það er deginum ljósara að þessi tímabundna aðgerð, að taka aftur upp eldri aðferð útboðs, skemmdi markaðinn,“ segir Ólafur. Gjald vegna lífræns alifuglakjöts hefur til dæmis hækkað um næstum 200 prósent á tímabilinu og svínakjöts um nærri 166 prósent.

Ólafur segir að stjórnvöld hafi ekki verið til viðræðu um að lækka tolla yfir línuna en aðrar leiðir er hægt að taka upp. Til dæmis hafi Félag atvinnurekenda og Neytendasamtökin lagt til blandaða leið útboðs byggða á hlutkesti og viðskiptasögu. Núverandi kerfi sé að minnsta kosti ekki að virka.