Eva María Hallgrímsdóttir hjá Sætum syndum segist baka mikið með Hilmi syni sínum sem nú er 10 ára. „Ég og Hilmir erum mjög dugleg að baka saman og hefur hann eytt ófáum stundum með mér við að skreyta kökur og svo er auðvitað skemmtilegast að smakka.“

Skreytingapakkinn er tilvalinn til að eiga góða stund með börnunum eða einfaldlega fá smá vinnufrið segir Eva María. Fréttablaðið/Sigtryggur ari

Flest börn hafa gaman af því að baka og segist Eva halda að það sé einfaldleikinn og auðvitað afraksturinn sem þar ráði för. Nú þegar margir séu heima við sé tilvalið að leyfa börnunum að baka og því hafi hún fengið hugmyndina að kökuskreytingapakka með öllu tilheyrandi. Eva hlær þegar hún er spurð hvort það fari þá ekki allt á hvolf. „Ég held því miður að það sé bara einn fylgikvilli við bakstur að eldhúsið fer alltaf smá á hliðina. Þetta er smá fórnarkostnaður fyrir gómsæta köku. “